fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Karl Berndsen: „Leyfið mér að lifa“

Opnar sig um sitt nýja líf – „Á þeim tíma dó ég þrisvar sinnum“ – Vill vekja athygli á aðgengi og kvíðaröskun

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Miðvikudaginn 5. október 2016 22:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karl Berndsen bjó í glæsihýsi, átti gnægð fjár og umgekkst ríka og fræga fólkið. Allir elskuðu Kalla og vildu margir baða sig í stjörnuljómanum. Hann stjórnaði sjónvarpsþáttum og lék í auglýsingum.

„Þetta er allt í kaffinu,“ eru ein hans fleygustu ummæli og margir ættu að kannast við.

Í dag er Kalli löngu fluttur út úr glæsihýsinu sem var svokallað „penthouse“. Peningarnir eru af skornum skammti og hann er ekki lengur fastagestur á síðum slúðurblaðanna. Karl eða Kalli Berndsen eins og hann er gjarnan kallaður starfaði sem hárgreiðslu- og förðunarmeistari en er í dag 75 prósent öryrki eftir lífshættuleg veikindi. Hann lá í dái í þrjá mánuði. Þegar hann vaknaði var hann breyttur maður og settist að í 50 fermetra íbúð hjá Blindrafélaginu. Ellefu sinnum var borað í gegnum höfuðkúpu hans og inn í heila en fyrir aðgerðina hafði Kalli þær áhyggjur að læknarnir boruðu of langt. Þeir myndu jafnvel fyrir mistök bora úr honum samkynhneigðina. Aðspurður hvort hann sakni Kalla Berndsen eða Karls junior eins og hann kallar sitt gamla sjálf, hvort þeir eigi eitthvað sameiginlegt, hvort þeir séu líkir, svarar Kalli og rödd hans brestur:

„Alls ekki. Ég ætlaði ekki að fara að gráta hérna.“ Við sitjum úti á svölum á Kringlukránni. Á borðinu eru hlutirnir hans, haganlega raðað, allir hægra megin. Vinstra augað skaddaðist í aðgerðinni í einu af þeim skiptum sem læknar brutu sér leið í gegnum höfuðkúpuna. Á borðinu er kjúklingaréttur og hvítvínsglas. Kalli er með fjólublátt teppi yfir axlirnar til að verjast kuldanum. Hann lítur á mig og segir: „Ég er svo guðslifandi feginn að vera laus við Kalla junior. Nú er ég að rísa upp úr öskustónni eins og fuglinn Fönix. Báturinn er kominn að landi með fullfermi og nú ætla ég að landa úr honum, bróðir.“

Í dái í þrjá mánuði

Ég sakna hans ekki. Ég sakna ekki lífsins sem hann lifði. Hann var ágætur en hræddur og áttaði sig ekki á tilgangi lífsins.

Árið 2013 var greint frá því í fjölmiðlum að Kalli glímdi við krabbamein. Fyrst var talið að um heilaæxli væri að ræða. Seinna kom í ljós að krabbameinið var í eitlum. Við tóku fjölmargar lífshættulegar aðgerðir þar sem borað var í gegnum höfuðkúpu Kalla til að tappa af heilavökva. Hann var í dái í þrjá mánuði.

„Á þeim tíma dó ég þrisvar sinnum,“ segir Karl Berndsen sem fyrst nú, þremur árum seinna er mættur aftur á stóra sviðið og ætlar að láta mikið á sér kveða á næstunni. Meinið er farið eftir ellefu aðgerðir. Nú í sumar fékk Kalli þær gleðifréttir að hann myndi ekki glata sjóninni. Það óttaðist hann hvað mest. Það var þá sem hann loks kom úr felum og hætti að einangra sig.

Kalli hafði skömmu fyrir veikindin slegið í gegn með útlitsþáttum sínum Í nýju ljósi sem sýndir voru á Stöð 2. Hann var landsþekktur fyrir að aðstoða konur og karla við að breyta útliti sínu til hins betra. Þá seldist bók hans VAXI-n eins og heitar lummur. Hann rak stofuna Beauty barinn í Kringlunni. Vinsældir hans voru slíkar að Besti flokkurinn setti hann í heiðurssætið fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2010. Allt virtist leika í lyndi.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=YZ-Q3cbJhDo&w=560&h=315]

Þegar þetta er rifjað upp, leggur Kalli áherslu á að hann sé að koma til baka. Hann kreppir hnefann. Réttir úr bakinu. Glampi í augum. Hann minnist aftur á bátinn. Hann hafi á þessum þremur árum sem hann hefur verið í burtu, tvö af þeim í mikilli kvíðaröskun sem hann hefur nú losað sig undan, fyllt bát sinn af ýmsu góðgæti. Báturinn liggur nú við bryggju eftir langa veru á úfnum sjó og hann er að bera farminn í land. Og hann býður gömlum og nýjum vinum að taka þátt. Farmurinn er meðal annars ýmis viðskiptatækifæri, nýjar hugsanir og hugsjónir. Í brúnni stendur nýr Karl Berndsen. Karl junior hélt á djúpið og kom breyttur maður í land. Nýi Kalli vill berjast fyrir umhverfinu, vera góður við náungann, hjálpa blindum. Kenna okkur að hlusta á náttúruna.

„Ég er lögblindur,“ segir Kalli. „Ég er bara með tíu prósent sjón. Þess vegna sit ég hér á móti þér. Ég vil vekja athygli á aðgengi blindra.“

Það tók lækna á Landspítalanum marga mánuði að komast að hvað væri að hrjá Kalla. Í viðtali stuttu eftir að veikindin komu upp sagði Karl junior:

„Það er alveg sama hversu mikillar velgengni maður nýtur, líkaminn verður að virka. Það er mikið áfall að verða veikur. Fótunum er kippt undan manni og maður fer að hugsa lífið upp á nýtt. Mér fór líða eitthvað undarlega í ágúst en hélt að ég væri bara með flensu og þetta myndi lagast. Það gerðist ekki og fyrir mánuði var ég lagður inn á spítalann.“

Hann hafði á þessum tíma verið undir miklu vinnuálagi. Hann náði að klára þætti sína áður enn hann var lagður inn. Þá sagði hann meðferðina ganga vel. Hann vissi ekki af storminum fram undan. Vissi ekki að þegar hann kæmi aftur í land yrði hann breyttur maður. Víðsýnni maður. Annar Kalli. Betri Kalli. Enn sú fæðing gekk ekki þrautalaust fyrir sig.

Hamingjusamur í æsku

„Mig vantar hjálp við að landa.“
Kominn að landi „Mig vantar hjálp við að landa.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Karl Berndsen er fæddur 1. ágúst 1964. Hann var ör sem barn og alltaf á ferðinni. Hann kveðst snemma hafa byrjað að leika sér með barbídúkkur. Hann segist hafa verið alinn upp við strangt enn kærleiksríkt uppeldi. Karl hefur ekkert nema gott um foreldra sína að segja og þá voru aðrir tímar. Móðir hans var og er hans helsti bandamaður.

„Mamma kenndi mér allt um heimilisstörf og hún var mér allt. Hún kenndi mér að vinna og lét mig bursta skóna hans pabba. Pabbi kom alltaf heim um hálf tíu í kaffi. Hann gekk þá frá verkstæðinu enn hann starfaði sem vélvirki. Hann hét Þórólfur Berndsen.“

Faðir hans lést árið 1995. Kalli samdi þá texta við lagið Himnarnir opnast en sá texti fjallar um föður hans. Það tekur á Kalla að ræða um missinn. Þegar Kalli rifjar upp æsku sína segist hann líklega hafa verið leikari allt sitt líf.

„Ég sakna hans ekki.“
Karl junior eins og þjóðin man hann „Ég sakna hans ekki.“

„Ég hef alltaf verið í minnihlutahópum frá því að ég fæddist. Ég stamaði sem barn, lék mér að dúkkum og stundum bílum,“ segir Karl og brosir og segir ímyndarafl sitt hafa verið fjörugt. Stundum skar hann upp dúkkurnar og dreymdi um að verða læknir. Karl fer svo fram í tímann, til unglingsáranna þegar hann var að stíga inn í heim hinna fullorðnu. Hann reyndi af öllum mætti að fela og bæla niður tilfinningar til karlmanna og lagðist upp í rúm með hverjum kvenmanninum á fætur öðrum. „Ég upplifði síðan kynlíf með karlmanni og þá vissi ég hvar ég stóð. Ég vildi bara vera normal. Pabbi var vélvirki og bróðir minn vélstjóri en ég var bara í dúkkuleik.“

Varst þú skammaður fyrir það?

„Aldrei. Ég fékk að vera ég sjálfur.“

„Vissu foreldrar þínir að þú værir samkynhneigður?“

„Ekki í æsku. Pabbi vissi það á dánarbeðinum, þegar hann lá í óminni. Það var erfiðasti tími ævi minnar.“

Hvernig brást hann við því?

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Hann var dáinn,“ segir Karl og röddin brestur. Skilurðu ekki elskan, hann var dáinn. Ég náði ekki að segja honum það áður en hann dó. Ég sagði honum það þegar hann var dáinn. Ég hélt að hann myndi ranka við sér.“

Aðspurður hvort föður hans hafi ekki grunað hvers kyns var, segir Kalli að líklega hafi svo verið.

„Ég var 23 ára þegar ég sagði mömmu þetta. Hún gjörsamlega brotnaði niður. Henni sárnaði mest sem móður að ég skyldi ekki hafa treyst henni fyrir þessu fyrr,“ segir Kalli og bætir við að þá hafi verið aðrir tímar. Fordómarnir meiri. Næstum allir með sjálfa sig inni í harðlæstum skáp. Hann rifjar upp þegar Hörður Torfason söngvari kom út úr skápnum og fór í umdeilt viðtal við Samúel. Hörður var þá ungur maður en Karl Berndsen barn.

„Ég varð vitni að því þegar fólk sagði að það ætti að taka þennan andskotans djöful og aflífa hann. Börn á þeim tíma ólust upp við að heyra slíkt en þá vissi fólk ekki betur,“ segir Kalli en þungu fargi var af honum létt þegar hann opinberaði sig fyrir móður sinni.

„Eftir að pabbi dó, þá sagði mamma, það er kominn tími til að þú lifir þínu lífi til fulls.“

Höfum tapað eiginleikanum til að hlusta

„Ég vil ekki að þetta viðtal snúist aðallega um veikindi. Ég er kominn til baka eftir að hafa verið frá í öll þessi ár. Karlinn er tekinn við stýrinu og það eru hlutir sem við þurfum að vekja athygli á, bróðir. Ég er með svo mikinn sjálfsaga þegar ég stend sjálfur í brúnni, einn og óstuddur. Ég verð aldrei sami Karl Berndsen. Við endurfæðinguna kallaði ég mig Karl the great en í húsi Blindrafélagsins búa líka múslimar og Karl sá var djöfulsins morðingi. Áður var ég með fordóma. Nú baka ég fyrir þá pönnukökur.“

Ertu mikið breyttur?“

„Ég hef alltaf verið í minnihlutahópum frá því að ég fæddist. Ég stamaði sem barn, lék mér að dúkkum og stundum bílum“

„Jesús minn almáttugur, já. Ég sé lífið á annan hátt. Ég er lögblindur. Þú uppgötvar lífið upp á nýtt. Nú sting ég upp í mig brauði, þegi og loka augunum. Þú finnur bragðið á annan hátt. Lífið á annan hátt. Þetta er fullnæging í hjarta. Áður sat ég kannski allur krepptur með krosslagðar hendur, alveg frosinn. Nú sit ég hér gleiðfættur og afslappaður. Ég var mikill rjúpnaveiðimaður. Nú myndi ég ekki gera flugu mein. Ég hugsa inn á við. Ég er náttúruverndarsinni og hirði upp flöskur og sígarettustubba og stunda jóga.“

Hann bætir við að margir hafi tapað eiginleikanum til að hlusta á náttúruna. Hann kveðst hvorki trúa á himnaríki né helvíti heldur mátt hugans. Kalli talar lengi og mikið um heimildamyndina Innsæi eftir Kristínu Ólafsdóttur sem vakið hefur mikla athygli erlendis. Hún verður sýnd á RIFF. Myndin fjallar um óskilgreinda tilfinningu innra með manninum sem sé nánast hættur að treysta í heimi stöðugra tækninýjunga. Vegna margra breytinga sem sé að vænta í heiminum sé nauðsynlegt fyrir mannkynið að treysta og kynnast betur þessari tilfinningu.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=leFCIThHaOs&w=640&h=360]

„Hvernig teiknuðu þeir upp höfin í gamla daga. Við töluðum við höfin og náttúruna og ég hef verið að kynnast aftur þessari tilfinningu. Kristín sem framleiðir myndina er ein af fáum sem skilur mig og ég vona að allir flykkist í bíó til að kynnast þessari dýrmætu mynd.“

Gat ekki hitt fólk í tvö ár – Hvar eru allir vinir mínir?

Kalli var í dái í þrjá mánuði eins og áður hefur komið fram. Þegar hann vaknaði lokaði hann sig af og forðaðist fólk. Hann barðist við kvíðaröskun og lauk þeirri glímu ekki fyrr en nú í sumar. „Ég uppgötva eitthvað nýtt í hverri viku.“ Í aðgerðinni voru gerð mistök og farið of nálægt sjóntauginni. Hann er því með litla sem enga sjón á vinstra auga og löglega blindur. Að hans mati vantar víða mikið upp á aðgengi fyrir sjónskerta í samfélaginu. Til að vekja athygli á aðgengi gengur Kalli með útprentaðan þumal og tekur myndir og gefur einkunnir með því að beina þumlinum upp eða niður, eftir því hvað við á. „Það sem er að kæfa mig bróðir, er aðgengi fyrir sjónskerta og hjólastóla. Það eru hömlur víða og ég hef gert þáttaraðir. Ég hvet fólk til að taka þátt í því og hjálpa okkur að bera út boðskapinn.

Ég vil segja, þó að að ég hafi dottið út af veginum og hafi legið utanvegar smástund, sýnið mér virðingu og öllum öðrum sem hafa og eiga við veikindi að stríða. Ég er að koma úr kvíðaröskun eða því sem Freud kallaði kvíðadauða, það má víst ekki segja það vegna ljótleika orðsins, en það er raunveruleikinn. Kvíðinn myrðir tilfinningar en það þarf umræðu um þessi mál. Það þjást margir af kvíðaröskun.“

„Ég er kominn til baka eftir að hafa verið frá í öll þessi ár.“
Óbeygður „Ég er kominn til baka eftir að hafa verið frá í öll þessi ár.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Karl hitti ekki fólk í tvö ár. Hann byrjaði á því að spyrja; hvar eru allir vinir mínir?

„Eftir svolitla stund áttaði ég mig og sagði við sjálfan mig: Kalli. Þú hefur dottið af hestbaki en ef ég dett af hestbaki þá kem ég tvíefldur ríðandi á múlasnanum til baka. Ég uppgötvaði, þetta eru ekki þeir. Sannir vinir eru eins og stjörnurnar, þeir eru til staðar, en maður sér þá ekki alltaf. Falskir vinir eru eins og rigningin, aldrei á þá treystandi og alltaf til ama,“ segir Kalli. „Ég hef ekkert að fela. Örin sanna það,“ segir Karl og tekur ofan hattinn og sýnir djúpar holurnar á höfðinu.

Nú hittir þú gamla vini sem þekktu gamla Karl Berndsen. Nú ert þú annar maður, eru þessir gömlu vinir eða fjölskyldan að reyna að fá þig til að verða eins og þú varst fyrir veikindin?

„Fjölskyldan hefur haft áhyggjur af mér og ég hef farið til læknis. Ég verð aldrei sami maður og ég tel mig vera betri mann í dag. Ég hef komist að því að ég vil engum illt. Mér líður eins og belju sem hefur verið hleypt út, ég er svo kátur. Fjölskyldan stendur þétt við hliðina á mér, er að ofvernda mig en vill vel. Ég sleit tengslin og bað fjölskylduna að gefa mér hálfan mánuð til að stýra mínum bát og það hefur gengið vel, hann er svo troðfullur af afla að ég veit ekki hvað ég á að gera við hann allan.“

Pabbi var vélvirki og bróðir minn vélstjóri en ég var bara í dúkkuleik.

Þegar hann er spurður hvort systkini hans hafi áhyggjur eða telji að hann sé jafnvel í maníu, segir hann þá umræðu hafa komið upp. Hann kveðst þó skilja áhyggjurnar sem hann skilgreinir sem væntumþykju í hans garð. Hann segir lækninn hafa sýnt honum skilning.

„Skiptu stöðugt um áhorfendur,“ sagði hann við mig. „Þú hefur frá svo mörgu að segja.“ Kalli þagnar stutta stund. „Ég dó, nær enginn því? Ég er hamingjusamur að vera á lífi. Leyfið mér að lifa. Hellið hvítvíni í glasið mitt. Ég er búinn að vera tvö ár í kvíðaröskun. Nú þarf að sleppa mér. „I need to make money“.“

Það er ýmislegt á prjónunum og hann segist vera kominn með fjárfesti og sé á leið með nýja vöru á markað. Hann geti ekki ljóstrað því upp á þessum tímapunkti. Hann er kominn á kunnuglegar slóðir og næst á dagskrá er að stýra kvennakvöldi hjá Next.

„Gefið mér tíma og virðingu, og öllum sem þurfa á því að halda.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hver er helsti munurinn á þessum Kalla sem situr hér fyrir framan mig og þeim sem lagðist á skurðarborðið? Hvað er í kaffinu hjá þér?

„Ég kalla hann Karl junior, Karl yngri.“

„Ef að hann sæti á móti þér, hvernig myndir þú lýsa honum?“

„Ég sakna hans ekki. Ég sakna ekki lífsins sem hann lifði. Hann var ágætur en hræddur og áttaði sig ekki á tilgangi lífsins. Ef ég gæti farið aftur í tímann og komið í veg fyrir veikindin og haldið áfram að vera Karl junior myndi ég segja nei takk. Það skilur kannski enginn en ég vil hann ekki.“

„Þú fagnar því að endurfæðast?“

„Fyrirgefðu, ég fagna því að vera á lífi.“

„Á þeim tíma dó ég þrisvar sinnum“

Karl Berndsen veifar blindrastafnum og þjónustustúlkan kemur askvaðandi. Hann talar fallega til hennar, mærir hana áður en hann biður um að fá afganginn af matnum í box.

„Ég fer með matinn heim og gef hinum. Ég hefði ekki gert það í gamla daga. Nú vil ég hins vegar gefa einhverjum matinn sem er svangur í blokkinni því ég veit að það er nóg af þeim. Er það vegna þess að ég held að ég sé drottinn allsherjar eða vegna þess að ég er góður maður,“ segir Kalli og bætir við: „Ég er ágætur gæi. Og ekki hafa þetta viðtal eins og eitthvað tilfinningaklám. Aðgengi blindra og kvíðaröskun, það er mikilvægt að vekja athygli á því.“ Hann stendur upp og segir áður enn hann kveður: „Báturinn er kominn að landi. Mig vantar hjálp við að landa. Nú er spurningin hver vill kaupa aflann.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“
Fókus
Fyrir 2 dögum

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tók mynd af sér með nýfæddum syninum en það var mamman í bakgrunninum sem stal senunni

Tók mynd af sér með nýfæddum syninum en það var mamman í bakgrunninum sem stal senunni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun