Vegfarendur undir Eyjafjöllum hvattir til að fara gætilega í kvöld
Kröpp og dýpkandi lægð sunnan úr hafi nálgast landið í dag og fer þá jafnframt að hvessa af suðaustri, að því er fram kemur í skeyti á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að í kvöld verði kominn stromur við suðurströndina og síðar einnig vestanlands.
Vegfarandur eru hvattir til að fara gætilega ef þeir eru á ferð undir Eyjafjöllum í kvöld. Þá segir Veðurstofan að rigning verði víða á landinu næsta sólarhring, en þó ætti að haldast þurrt að mestu norðaustanlands. Á morgun dregur smám saman úr vindi og úrkomu, en gengur ekki niður á Snæfellsnesi fyrr en seint annað kvöld. Áfram verða suðlægar áttir og í vikunni með vætu, einkum þó syðra. Nokkuð milt verður í veðri miðað við árstíma og gætu tveggja stafa tölur sést víða á landinu.
Á þriðjudag:
Sunnan og suðaustan 8-13 m/s og skúrir, en bjartviðri NA-til. Hiti 8 til 12 stig, hlýjast NA-lands.
Á miðvikudag:
Suðaustan 10-18 með talsverðri rigningu, en úrkomulítið NA-til. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast NA-lands.
Á fimmtudag:
Suðaustan strekkingur með skúrum eða rigningu með köflum, en bjart NA-til. Áfram milt veður.
Á föstudag:
Stíf suðaustanátt með talsverðri rigningu, en úrkomulítið NA-til. Milt veður.
Á laugardag:
Suðaustlæg átt og rigning eða skúrir. Heldur kólnandi.