fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fréttir

Stíga þrjár fram og saka lögreglumann um kynferðisofbeldi: „Við erum sterkari saman“

Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Þriðjudaginn 19. júní 2018 12:30

Helga Elín, Kiana Sif og Lovísa Sól.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við erum stödd í Ólafsvík þar sem Lovísa Sól Sveinsdóttir býr. Með okkur, blaðamanni og ljósmyndara DV, í för eru fyrrverandi skólasystur Lovísu, Kiana Sif Limehouse og Helga Elín Herleifsdóttir. Kiana Sif og Helga Elín hafa stigið fram á forsíðu Mannlífs, hvor í sínu lagi með viku millibili, og lýst meintum kynferðisbrotum fyrrverandi stjúpföður Kiönu Sifjar, Aðalbergs Sveinssonar, lögreglumanns hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hin meintu brot áttu sér stað þegar stúlkurnar voru 10–14 ára gamlar en nokkrum árum síðar lögðu þær, hvor í sínu lagi, fram kærur á hendur Aðalbergi vegna hinna meintu brota. Rannsókn lögreglu leiddi til þess að málunum var vísað frá en stúlkurnar og aðstandendur þeirra telja að pottur hafi verið brotinn í vinnubrögðum lögreglu. Aðalbergur hefur verið dæmdur fyrir brot í starfi og hægt er að lesa um það brot frekar hérna.

Eins og fram hefur komið í viðtölum við Kiönu Sif og Helgu Elínu þá hafa hin meintu brot Aðalbergs haft gríðarleg áhrif á líf þeirra. Þær leiddust báðar út í óreglu og hafa háð harða baráttu til að koma lífi sínu á réttan kjöl. Það sama gildir um Lovísu Sól sem nú stígur fram sem þriðja meinta fórnarlamb Aðalbergs.

Allar stelpunar voru í sama grunnskólanum, í sama árgangi. Helga og Kiana voru bekkjarsystur en Lovísa Sól í sama árgangi en var mikið inni á heimili Aðalbergs, stjúpföður Kiönu, þar sem þær voru bestu vinkonur á þessum tíma. Gisti hún tvisvar til þrisvar sinnum í mánuði á heimilinu og það var iðulega í þessum tilvikum sem Lovísa Sól fullyrðir að Aðalbergur hafi brotið á henni.

En aftur að Ólafsvík. Samfundir stúlknanna þar marka tímamót. Síðan hin meintu brot áttu sér stað þá hafa þær háð baráttu sína við djöfla fortíðarinnar hver í sínu horni. Það flosnaði upp úr vinskap þeirra og þær fóru í mismunandi áttir. Núna eru þær sameinaðar á ný og fá styrk frá hver annarri. „Við erum sterkari saman,“ verður einni að orði þegar endurfundirnir eiga sér stað. Hér verður málið rakið frá upphafi til enda.

„Þetta gerðist yfirleitt þegar mamma var sofnuð“

Fyrsta kæran sem Aðalbergur fékk á sig var vegna meintra brota hans gegn stjúpdóttur hans, Kiönu Sif Limehouse, árið 2009. Kiana hafði þá brotnað niður og rætt við hjúkrunarfræðing grunnskóla síns um hin meintu kynferðisbrot stjúpföður síns. Barnavernd Mosfellsbæjar fór strax í málið. Stofnunin óskaði eftir viðtali í Barnahúsi auk þess sem farið var fram á að lögreglurannsókn hæfist. Kiana fór í meðferðarviðtöl hjá Barnahúsi og samkvæmt gögnum málsins, sem DV hefur undir höndum, þá nýtti hún þau mjög vel. Niðurstaðan varð þó sú að rannsóknin var látin niður falla.

Tveimur árum síðar, árið 2011, lagði Helga Elín fram kæru vegna meints kynferðisbrots Aðalbergs. Liður í þeirri rannsókn var að Kiana var aftur kölluð í skýrslutöku í Barnahúsi vegna hina meintu brota sem hún varð fyrir. Þar sagði Kiana þegar hún var spurð hvort hún hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi: „Það byrjaði í svona fimmta bekk. Á milli fimmta bekkjar og sjöunda bekkjar. Þetta gerðist nokkrum sinnum og þetta gerðist yfirleitt þegar mamma var sofnuð eða mamma var ekki heima. Hann kom alltaf inn í herbergið og var alltaf svona að kíkja hvort ég væri sofnuð eða ekki. Ég man rosalega vel eftir því, alltaf með annaðhvort bjór eða eitthvað í hendinni þótt hann væri að fara vinna daginn eftir. Annaðhvort léttvín eða eitthvað. Fyrir framan krakkana nærri því á hverju kvöldi. Ég þorði ekkert að fara á móti honum. Þannig þegar hann kláraði þetta fór hann bara fram og ég var bara hrædd, ég þorði ekkert að kalla á mömmu eða neitt. Ég þorði ekki að segja henni það út af því að hún gengur svo blind á eftir honum,“ sagði Kiana orðrétt, þá 14 ára gömul. Þegar hún var spurð hversu oft þessi meintu kynferðisbrot hefðu átt sér stað sagði Kiana að alls hefðu þetta verið fimm til sex skipti.

Eftir að Kiana tilkynnti hið meinta kynferðisafbrot fluttist hún af heimili móður sinnar til móðurömmu sinnar í Kópavogi. Kemur fram í skýrslu frá Barnaverndarnefnd Kópavogs að Kiana hefði ekki stuðning móður sinnar. Þar kemur einnig fram að Kiana hafi óskað eftir frekari hjálp fagaðila til að takast á við líðan sína en móðir hennar hafi hafnað þeirri beiðni. Óskaði Barnanefnd Kópavogs eftir að Kiana gæti sótt meðferð í Barnahúsi án samþykkis móður sinnar, þar sem hún hefði ekki orðið við þeirri ósk að sækja sér frekari meðferð. Barnavernd Mosfellsbæjar taldi það mikilvægt að Jóhanna, móðir Kiönu, og Aðalbergur fengju sérfræðiviðtöl með tilliti til framhaldsins og stuðning um hvernig ætti að sameina fjölskylduna að nýju. Þau fóru í tvö sérfræðiviðtöl hjá sálfræðingi en töldu sig ekki þurfa á fleiri viðtölum að halda að þeim loknum.

Eins og áður segir fékk Aðalbergur á sig aðra kæru vegna meints kynferðisafbrots gegn Helgu Elínu árið 2011. Það brot átti að hafa átt sér stað í sumarbústað í Skorradal árið 2007. Helga Elín, sem þá var 10 ára gömul, fékk að slást í för með Kiönu vinkonu sinni, Jóhönnu móður hennar og stjúpföðurnum Aðalbergi. Með í för var annað par ásamt dætrum sínum, Páll Winkel fangelsismálastjóri og fyrrverandi kona hans.

Hið meinta kynferðisbrot Aðalbergs var tilkynnt lögreglu þann 13. október 2011. Tveimur dögum eftir að Helga Elín hafði brotnað saman í skólanum sínum og sagt kennara sínum frá því hvað hefði gerst þessa umræddu helgi í sumarbústaðnum í Skorradal. Teknar voru skýrslur í Barnahúsi af Helgu Elínu, brotaþola, og Kíönu Sif sem vitni, eins og áður segir. Einnig var rætt við vinkonu Helgu Elínar þar sem hún sagði vinkonu sinni frá meintum brotum áður en hún sagði kennara í skólanum sínum frá.

Taldi að um samantekin ráð stúlknanna væri að ræða

Í viðtölunum kemur fram að Helga Elín og Kiana Sif hafi sofið á vindsæng frammi í stofu. Helga Elín hefði vaknað við það að „kallinn“ væri að káfa á kynfærum hennar. Nánar aðspurð skýrði hún frá því að „kallinn“ hafi verið Aðalbergur, stjúpfaðir Kiönu. Í fyrstu hefði hún frosið og ekki þorað að gera neitt né segja eitthvað, en það leið ekki á löngu þar til hún brast í grát og vildi fá að tala við Jóhönnu, móður Kíönu. Að sögn Helgu Elínar fór hann með hana til Jóhönnu en þá þorði hún ekki að segja neitt fyrir framan hann. Við yfirheyrslur lögreglu kannaðist Jóhanna hins vegar ekki við að Aðalbergur hefði komið með hana til sín grátandi þetta umrædda kvöld. Einnig sögðu Páll Winkel og kona hans við yfirheyrslur að þau hefðu hvorugt munað eftir því að Helga Elín hafi farið að gráta þetta kvöld.

Aðalbergur var kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglunni þann 13. desember 2011, eða tveimur mánuðum eftir að kæra Helgu Elínar barst lögreglu. Í gögnum málsins kemur fram að fyrst hafi verið rætt við þáverandi eiginkonu hans fimm dögum áður en yfirheyrslan yfir honum fór fram. Í yfirheyrslum kemur fram að þegar honum var bent á að meint brot hans gegn Helgu Elínu væru sams konar og þau brot sem Kiana, stjúpdóttir hans, bar á hann árið 2009, sagðist Aðalbergur telja að þetta væru samantekin ráð hjá stelpunum.

Hann var spurður hvort hann og Páll hefðu verið ölvaðir þetta kvöld. Minntist hann þess ekki en að þeir hefðu nú örugglega fengið sér rauðvín með matnum og bjór um kvöldið. Spurður hvort hann ætti við áfengisvandamál að stríða sagði Aðalbergur: „Nei, ekki lít ég svo á. Enda væri mér nú erfitt að sinna mínu starfi ef ég væri alltaf fullur.“ Í lok yfirheyrslunnar var hann spurður hvort vildi bæta einhverju við framburð sinn og sagði hann þá meðal annars: „En bara svona ásakanir sem eru algerlega í lausu lofti gripnar án þess að ég ætla að saka þessa stúlku um vísvitandi að ljúga einhverju. Það getur vel verið að hún hafi orðið fyrir einhverju einhvers staðar af hendi einhvers.“

Yfirheyrslur á skrifstofu Fangelsismálastofnunar

Yfirheyrslur yfir vitnum fóru síðan fram þremur mánuðum eftir að kæra Helgu Elínar var lögð fram. Páll Winkel og þáverandi kona hans voru bæði í sumarbústaðnum ásamt dætrum sínum þegar meint brot átti sér stað og voru því vitni í málinu. Þann 12. janúar 2011 voru Páll og þáverandi eiginkona hans bæði yfirheyrð í húsnæði Fangelsismálastofnunar í Borgartúni 7, rúmlega 500 metrum frá lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Yfirheyrslurnar stóðu yfir í 10 mínútur yfir hverjum einstakling. Við yfirheyrslur sagði Páll að hann hefði þekkt og haft kynni af Aðalbergi frá því að þeir unnu saman í lögreglunni í Reykjavík. Hann tók það fram að fjölskyldurnar hefðu haft nokkur samskipti, en þau hefðu minnkað síðustu ár og væru lítil sem engin þegar þar var komið sögu. Páll sagðist ekki hafa munað eftir hvort eiginkonur þeirra Aðalbergs hafi farið á undan þeim Aðalbergi að sofa. Þegar hann var spurður út í hvort það hefði verið fyllerí á þeim neitaði hann því og sagði að í þessum ferðum hefðu þeir karlarnir fengið sér bjór og að rauðvín hefði verið drukkið með mat. Hann tók fram að börn hefðu verið í ferðinni og að tillit hefði verið tekið til þess.

Samkvæmt gögnum sem DV hefur undir höndum virðist vera afskaplega erfitt fyrir lögreglu að tímasetja brotið þar sem enginn þeirra fjögurra fullorðnu einstaklinga sem voru í bústaðnum þegar brotið átti sér virðist muna nákvæmlega hvenær þessi bústaðarferð var farin. Móðir Helgu Elínar gaf þá lögreglunni upplýsingar um símanotkun sína þar sem hún man að hafa verið í sambandi við meintan geranda, Aðalberg, rétt fyrir þessa umræddu helgi. Samkvæmt símtalsgögnunum var farið í bústaðinn helgina 16. til 18. febrúar 2007. Einnig staðfesti Jóhanna að það gæti staðist að þetta hafi verið í febrúar 2007 en minnti þó að þessi umrædda sumarbústaðarferð hefði verið farin 2006. Þó svo að þessi gögn hafi legið fyrir lagði lögmaður Aðalbergs fram tímaskýrslur úr mætingarkerfi lögreglunnar þar sem kom fram að Aðalbergur hefði verið að vinna allar helgar í febrúar, þar með talið helgina 16. til 18. febrúar. Þar vann hann samkvæmt skjalinu slétta 10 klukkutíma bæði laugardag og sunnudag. Var það eitt af rökum saksóknara fyrir að gefa ekki út ákæru að ekki væri hægt að tímasetja nákvæmlega hið meinta brot, þó svo að símagögn móður þolanda hefðu legið fyrir. Einnig var ekki rannsakað frekar af hverju tímaskýrslur Aðalbergs vegna vinnu hans hjá lögreglu stemmdu ekki við símagögnin.

Fraus þegar hún hitti meintan ofbeldismann í Kringlunni

Árið 2013 fékk Aðalbergur á sig þriðju kæruna vegna meints kynferðisbrots. Faðir Lovísu Sólar lagði þá fram kæru fyrir hennar hönd eftir að dóttir hans hafði greint honum frá hinum meintu brotum sem áttu að hafa átt sér stað inni á heimili Aðalbergs á árunum 2010 og 2011. Í samtali við blaðamann segir Lovísa Sól að henni hafi alltaf staðið stuggur af Aðalbergi. „Hann horfði alltaf mjög furðulega á mann sama hvort Jóhanna var heima eða ekki,“ segir Lovísa Sól. Hún segist aldrei hafa rætt hinu meintu brot við nokkurn mann, hvorki Kiönu né aðra vini eða aðstandendur, þar til hún brotnaði niður og sagði föður sínum frá. „Hann sagði við mig að ég mætti ekki segja frá þessu og að þetta væri allt í lagi, þetta væri bara eðlilegt,“ segir hún. Að hennar sögn fólust hin meintu brot í óviðeigandi augnagotum og snertingu auk þess sem hún fullyrðir að Aðalbergur hafi káfað á kynfærum hennar í nokkur skipti.

Það tekur augljóslega á hana að ræða málið og hún er nálægt því að beygja af. Hún sýnir þó styrk við að halda jafnvægi sínu. „Eftir að þetta gerðist í fyrsta skiptið reyndi ég alltaf að fá Kíönu til að koma frekar heim til mín því ég vildi ekki vera á heimili þeirra. Ég fór samt alltaf aftur vegna þess að ég trúði að kannski myndi þetta ekki gerast aftur,“ segir hún. Vinátta hennar og Kiönu var sterk á þessum árum. „Við vorum bestu vinkonur, við vorum alltaf saman, við vorum hreinlega límdar saman, ég vildi aldrei fara frá henni,“ segir Lovísa Sól. 

Hún segir að fréttaumfjöllun síðustu vikna, þar sem Kiana Sif og Helga Elín hafa stigið fram og opnað sig um meint kynferðisbrot, hafi fengið mjög á hana. „Ég reyndi að sofa hjá kærastanum mínum eftir að þetta mál með Helgu og Kiönu kom upp í blöðunum og ég bara fór að gráta, ég gat það ekki,“ segir hún. Hún segist aðeins einu sinni hafa hitt Aðalberg eftir að kæran var lögð fram. „Ég hef einu sinni séð hann frá því að ég kærði hann, það var í Kringlunni. Ég bara fraus og gat ekki hreyft mig. Loks byrjaði ég bara að gráta og endaði á því að hlaupa út.“

Kæru Lovísu Sólar var vísað frá, rétt eins og kæru Helgu Elínar og Kiönu Sifjar. Það kom Lovísu Sól ekki á óvart. „Er það ekki bara eðlilegt á Íslandi? Ég hafði engar væntingar af því að ég vissi svo sem að það myndi ekkert gerast þó að það yrði kært, það er bara þannig á Íslandi, það gerist ekkert í svona málum.“

Var aldrei leystur tímabundið frá störfum meðan á öllum rannsóknum stóð

Þrátt fyrir að hafa verið kærður þrisvar fyrir meint kynferðisbrot gagnvart börnum var Aðalbergi aldrei vikið frá störfum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu meðan á rannsóknum málana stóð. Þegar kæra númer tvö lá á borði lögreglu hafði móðir Helgu Elínar samband við Ríkislögreglustjóra til að fá svör við því af hverju Aðalbergi væri ekki vikið frá störfum á meðan rannsókn málsins stæði yfir svaraði ríkislögreglustjóri á þann veg að hann hefði ekki nægilega góðan aðgang að gögnum málsins og gæti því ekki tekið afstöðu í málinu. Það er hlutverk ríkissaksóknara að láta ríkislögreglustjóra fá rannsóknargögn um mál sem eru í vinnslu hjá þeim, en saksóknari taldi sig hafa haft samband við Lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu til þess að meta hvort ætti að leysa Aðalberg tímabundið frá störfum á meðan rannsókn málsins stóð yfir. Engin niðurstaða fékkst í þetta mál og starfaði hann því áfram hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á meðan málið var rannsakað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Er þetta versta stefnumót sögunnar? Frábært kvöld þar til hún þurfti að fara á klósettið

Er þetta versta stefnumót sögunnar? Frábært kvöld þar til hún þurfti að fara á klósettið
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Mörg þúsund flugvélar hafa orðið fyrir alvarlegri truflun – Böndin beinast að Rússlandi

Mörg þúsund flugvélar hafa orðið fyrir alvarlegri truflun – Böndin beinast að Rússlandi
Fréttir
Í gær

Jón Steinar studdi Arnar Þór en er búinn að skipta um skoðun

Jón Steinar studdi Arnar Þór en er búinn að skipta um skoðun
Fréttir
Í gær

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda