fbpx
Fimmtudagur 13.nóvember 2025
Eyjan

Sjálfstæðisflokkur í „skelfilegu“ fylgi

Egill Helgason
Laugardaginn 23. janúar 2016 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flestum Íslendingum er nákvæmlega sama hvort áfengi er selt í matvörubúðum, en þeim er ekki sama um heilbrigðiskerfið þangað sem þeir þurfa allir að leita á einhverjum tímapunkti eða einhverjir nákomnir,  eða bankakerfið sem ræður svo miklu um afkomu þeirra í lífinu.

Stjórnmál sem snúast um fyrirkomulag áfengissölu eru léttvæg – þetta eru stjórnmál fyrir þá sem hafa litlar hugsjónir og skortir ekki neitt. Munum að ein kveikjan að búsáhaldauppreisninni var sú að Alþingi ætlaði í upphafi þings 2009 að fjalla um frumvarp um vín í búðir á sama tíma og allt var í upplausn. Og nú á enn einu sinni að fara að fjalla um þetta mál – eins og framtíð þjóðarinnar velti á því.

Manni kemur stundum í hug bókartitilinn „Óbærilegur léttleiki tilverunnar“.

Nú kraumar mikil óánægja með almennings vegna sífelldra frétta um slæmt ástand í heilbrigðiskerfinu. Kári Stefánsson hefur efnt til undirskriftasöfnunar þar sem þess er krafist að meira fé verði sett í heilbrigðismálin. Búast má við mikili þátttöku. Undirskriftir eru 20 þúsund eftir einn sólarhring.

Bankarnir eru sífellt með sömu okurvextina,  ófyrirleitið plokk í alls kyns gjöldum og ofurhagnaðinn. Við þetta bætast svo hneykslismál eins og salan á hlutabréfum í Símanum og Borgunarmálið.

Á sama tíma er talað um að nú eigi að fara að einkavæða bankana upp á nýtt. En það er í raun ekki spurningin sem almenningur hefur áhuga á. Hann vill góða og sanngjarna banka.

Er furða þótt fylgi ríkisstjórnarinnar fari minnkandi? Nei, stjórnin virkar eins og hún sé úr tengslum við venjulegt fólk. Reyndar er ýmislegt sem bendir til þess að Framsóknarflokkurinn sé að reyna að fjarlægjast Sjálfstæðisflokkinn til að marka sér stöðu fyrir kosningarnar á næsta ári.

Styrmir Gunnarsson segir að Sjálfstæðsflokkurinn forðist eins og heitan eldinn að ræða vanda sinn, rétt eins og Samfylkingin. Hann sé fastur í fylgi sem áður hefði talist skelfilegt og ef marka má nýjustu skoðanakannanir fer það enn dvínandi. Styrmir segir að einn vandi Sjálfstæðisflokksins sé að hann sitji uppi með hrunið:

Í þessu samhengi er nokkuð ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn þarf að huga vandlega að sinni stöðu. Hann hefur aldrei gert hrunið upp og situr uppi með það.

Skoðanakannanir sýna hvað eftir annað að ungt fólk vill lítið hafa með Sjálfstæðisflokkinn að gera – Píratar virðast ætla að fá fylgi mikls meirihluta yngri kjósenda. Í umræðum um stöðu Sjálfstæðisflokksins á netinu má lesa þetta frá einum af fyrrum stuðningsmönnum hans:

Það var heldur ekki góð hugmynd að byrja á að gefa útgerðinni 6 til 7 miljarða á ári, lækka skatta á auðmenn og hækka vsk á matvæli. Og svo kom Hanna Birna aftur inn á þing. Þá bættist svo Borgunarhneykslið við og nú er enn talað um bankasölu. Það er engu líkara en að þetta fólk vilji flokkinn dauðan.

 

crop_500x

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar