
Það er mikið rætt um banka þessa dagana. Spillta banka, samfélagsbanka, einkavæðingu banka.
Þórarinn Stefánsson er tölvu- og kaupsýslumaður sem rekur fyrirtækið Mobilitus – það er íslenskt að uppruna en starfar í Portland í Oregon.
Þórarinn tjáði sig um bankamálin í tilefni af grein eftir Gylfa Magnússon sem nefnist Taka tvö: Ríkið selur banka.
Orð hans eru einföld en mjög umhugsunarverð:
Ég sakna þess möguleika að skoða hvort ekki sé hægt að reka fjármálakerfi með það að markmiði að það sé með sem minnst umfang, sé hagkvæmt rekið og kosti fólk og fyrirtæki sem minnst.
Möo, hvernig setjum við upp fjármálakerfi sem býður eins lága vexti og hægt er, hefur eins lág þjónustugjöld og hægt er og hagnast eins hóflega og hægt er.
Virkar sjálfsagt og einfalt, en skyldi það vera mögulegt? Spurningin er ekki bara hverjir eiga banka, heldur hvernig banka við viljum.