
Það er rétt hjá Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata, að ástæðulaust er að forsætisráðherra eða ríkisstjórnin efni til þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtryggingu.
Eðlilega leiðin væri að lagt yrði fram stjórnarfrumvarp í þinginu um verðtrygginguna og mögulegt afnám hennar. En staðreyndin er náttúrlega sú að ágreiningur er um verðtrygginguna innan stjórnarinnar og engar líkur á að slíkt frumvarp líti dagsins ljós. Sjálfstæðisflokkurinn myndi heldur varla kæra sig um að láta stilla sér upp við vegg með þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtrygginguna, jafnvel þótt hún væri einungis „ráðgefandi“ eins og Sigmundur Davíð orðar það.
Það er farið að halla á síðari helming stjórnarsamstarfsins og Framsóknarflokkurinn er greinilega farinn að huga að því að skapa sér stöðu fyrir kosningarnar vorið 2017. Það er næsta ólíklegt að staðið verði við fyrirheit um afnám verðtryggingarinnar, en Framsókn verður að láta líta út fyrir að hún hafi allavega reynt.
Pawel Bartoszek orðar þetta svo á Facebook:
Ef þingmeirihluti vill afnema verðtryggingu þá afnemur hann verðtryggingu. Sigmundur er að biðja um rándýrt klapp á bakið frá kjósendum og hjálp þeirra við að leysa ágreining innan hans eigin stjórnar.