

Í október síðastliðnum var ég einna fyrstur manna til að vekja máls á því sem var að gerast í kringum sölu á hlutabréfum í Símanum. Sérstökum vildarvinum Arion-banka og einstaklingum sem forstjóri Símans valdi var boðið að fara fremst í röðina, kaupa hlutabréf á sérstökum vildarkjörum. Í greininni sem ég skrifaði þá stóð:
Klíkubræður skammta öðrum klíkubræðrum peninga. Út á þetta gengur það og ekkert annað.
Mikil umræða varð um þetta mál – og maður heyrði vart annað en hneykslun. Eiginlega allir sem tóku til máls voru sammála um að sjálftaka af þessu tagi væri ólíðandi ef ætti að byggja hér upp heilbrigt viðskiptalíf.
En eftirmálin voru í raun engin umfram hneykslunina. Það var ekkert gert, ekkert var í raun reynt til að ógilda þennan gjörning.
Nú segir í fréttum að hópurinn sem fékk að kaupa í október geti á morgun selt bréf sín fyrir 27 prósent hærra verð en hann keypti á – og græði þá 410 milljónir á bixinu. Það er allveruleg fjárhæð og enn staðfestast verstu grunsemdir sem uppi voru um viðskiptin.
Reyndar má segja að þetta hafi verið vegleg peningagjöf, ekki viðskipti.
Ennfremur er þetta staðfesting á vaxandi stéttaskiptingu á Íslandi og ófyrirleitinni sókn þeirra sem hafa aðstöðu til í skyndigróða. Og þetta vekur illan grun um einkavæðingu banka sem er fyrirhuguð á næstu misserum.
Ragnar Önundarson, sem einna fyrstur varaði við yfirvofandi bankahruni á Íslandi á fyrsta áratug aldarinnar, skrifar á Facebook:
Bankar eiga að miðla lánsfé, ekki eigin fé. Bankar veraldarinnar þjóna forréttindafólki sem skilur bónuskerfin og spilar á þau. Bankarnir stuðla að samþjöppun auðs. Einn daginn fer almenningur og brýtur allar rúðurnar í þeim.