

Ég var ungur fréttamaður á sjónvarpinu þegar kallað var í okkur einn ágústdag 1991, utanríkisráðherrar þriggja Eystrasaltsríkja voru komnir til Íslands til að vera viðstaddir staðfestingu á stjórnmálasambandi okkar við Eistland, Lettland og Litháen. Þetta var afskaplega tilkomumikið, maður skynjaði að þarna var maður viðstaddur sögulegan atburð – þeir eru eftirminnilegastir frá þessum degi Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra Íslands og Lennart Meri sem var utanríkisráðherra Eistlands – og frelsishetja þar í landi.
Meri var listamaður, bóhem, varð síðar forseti – ég man ekki betur en að hann hafi verið í hvítum jakkafötum þennan dag eða ljósleit voru þau altént. Á myndum sýnist mér reyndar að seinna hafi hann skipt yfir í svört.
Þetta er hugsanlega eitt af því fáa sem við Íslendingar getum verið virkilega stoltir af í utanríkismálum, þarna vorum við fremstir í flokki að viðurkenna sjálfstæði smáþjóða sem höfðu mátt sæta kúgun og undirokun.
Um þetta er fjallað í heimildarmynd sem var sýnd á RÚV í gærkvöldi og nefnist Þeir sem þora.
En það er líka athyglisvert að einn hópur manna fann þessu allt til foráttu, reyndi að spilla fyrir og bar fyrir sig viðskiptahagsmunum.
Nefnilega útgerðarmenn.
En á svona stundum hugsar maður ekki með buddunni – ekki ef maður vill sýna mannlega reisn