fbpx
Fimmtudagur 13.nóvember 2025
Eyjan

Þýskaland 83 – takmarkað kjarnorkustríð í Evrópu

Egill Helgason
Miðvikudaginn 13. janúar 2016 15:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þáttaröðin Deutschland 83, sem nú er sýnd á RÚV, er kannski ekki stórkostlegt listaverk, en hún er spennandi og sögulegar skírskotanir eru áhugaverðar – ekki síst fyrir okkur sem lifðum þessa tíma, vorum ung og móttækileg og upplifðum þarna sögulega krísu í Evrópu.

Þetta var undir lok Kalda stríðsins – voru í raun síðustu hörðu átök þess í Evrópu áður en Gorbatsjov tók við völdum og Sovétblokkin fór að hrynja.

Þarna fór Reagan mikinn í Bandaríkjunum, lýsti Sovétríkjunum sem heimsveldi hins illa – undir stjórn hans var horfið frá détente stefnunni sem hafði verið ríkjandi, stefnu friðsamlegrar sambúðar.

Þetta kristallaðist í Þýskalandi 1983 þegar komst upp um áform um að setja þar niður meðaldrægar kjarnorkueldflaugar. Þetta vakti mikinn ugg, enda var meðal annars rætt um möguleikann á því að heyja „takmarkað“ kjarnorkustríð í Evrópu – sem myndi hugsanlega veita kommúnismanum náðarhöggið.

Snögglega spruttu upp stórar friðarhreyfingar sem efndu til mikilla fjöldamótmæla. Þær voru ekki einungis á  vinstri væng stjórnmálanna, heldur náðu þær líka mikilli útbreiðslu innan kirkjunnar. Ég var mikið í Þýskalandi þetta sumar og hvarvetna hitti maður ungt fólk sem brann í andanum vegna hinnar yfirvofandi kjarnorkuvopnavæðingar. Ríkisstjórnin í Þýskalandi, en þá var Helmut Kohl tekinn við sem kanslari, átti mjög í vök að verjast. Þetta var spennandi tími.

 

deutschland-83-keyframe-premiere-key-art-WED

 

Þáttaröðin segir frá þessum atburðum, aðallega frá sjónarhóli ungs austur-þýsks hermanns sem er gerður út sem njósnari til Vestur-Þýskalands. Hann er ekki vondur maður fremur en flestar aðrar sögupersónurnar; þær haga þær sér í samræmi við aðstæðurnar sem þær starfa í, bæði generálarnir hjá Nató og mótherjar þeirra, Stasiliðarnir fyrir austan tjald.

En það koma upp í hugann orð Matthíasar Johannessen, skálds og ritstjóra, sem sagði eitt sinn: „Kalda stríðið gerði enga okkar að betri mönnum.“

Annað er líka áhugavert: Þar kemur fram sem menn áttuðu sig máski ekki á 1983 eða vildu ekki viðurkenna, nefnilegahvað leyniþjónustur kommúnistaríkjanna höfðu mikil áhrif á friðarhreyfingarnar með undirróðri sínum, útsendurum og flugumönnum. Þannig var Kalda stríðið háð. Og undir lokin var Stasi það eina sem virkaði almennilega í Þýska alþýðulýðveldinu sáluga.

Í þáttunum á Stasi reyndar í mestu vandræðum með að ráða í tölvudiskling að vestan – sem minnir á að vegna viðskiptabanns höfðu kommúnistaríkin ekki aðgang að vestrænni tækni sem fleygði fram á þessum tíma, það mátti ekki einu sinni flytja kaffivélar eða brauðristar austur yfir tjald. Þetta var eitt af því sem gerði kommúnismanum ógjörlegt að lifa af.

Og svo er hitt, sem líka kemur fram – algjör skortur á einfaldasta neysluvarningi. Það var ekki einu sinni til almennilegt kaffi – því þurfti að smygla að vestan.

Eitt enn: Þarna rifjast líka upp furðuleg menningarfyrirbæri þessa tíma eins og Bhagwan-hreyfingin sem var mjög áberandi í Evrópu, sérstaklega Þýskalandi, upp úr 1980. Þetta voru áhangendur indversks gúrús sem boðaði meðal annars frelsi í kynferðismálum, en var í raun hreinræktaður loddari – safnaði meðal annars til sín flota Rolls Royce bifreiða. En ungt fólk í rauðleitum fötum söfnuðar hans mátti víða sjá – og í fjölmiðlum birtust viðtöl við foreldra sem höfðu áhyggjur af ungmennum sem höfðu ánetjast þessu.

 

300-1

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar