

Guðmundur Kristján Jónsson er titlaður framkvæmdastjóri Borgarbrags. Þetta er ráðgjafaþjónusta um „betra borgarumhverfi“ eins og segir á vef fyrirtækisins. Guðmundur hefur skrifað um arkitektúr og skipulagsmál – má segja að hann hafi yfirleitt verið nokkurn veginn á þeirri línu sem er ríkjandi í borgarstjórninni í Reykjavík.
Guðmundur skrifar athyglisverða grein um umdeildar byggingar í miðborg Reykjavíkur á vef Borgarbrags. Það er reyndar dálítið sérkennilegt að manni sem vill stuðla að betri borg er illa við að leikmenn tjái sig um þetta svið, hann kvartar undan „sjálfskipuðum sérfræðingum“.
Þetta er skítið og hrokafullt viðhorf. En það sem er merkilegt í grein Guðmundar er að þarna er maður sem á að teljast sérfróður (ólíkt hinum sjálfskipuðu) og hefur innsýn inn í hvernig ákvarðanir í arkítektúr og skipulagi eru teknar, að fjalla um hvernig starfsaðstæður arkitektar búa við.
Yfirleitt heyrist lítið um slíkt frá arkitektum sjálfum. Þeim er oftastnær fremur lítt um það gefið að fjalla opinskátt og gagnrýnið um sín eigin mál. Að því leyti minna þeir svolítið á gamaldags iðngildi. Til eru undantekningar frá þessu, eins og Hilmar Þór Björnsson, sem skrifar um arkitektúr og skipulag hér á Eyjuna svo mikill sómi er að. Hann hefur sjálfur kvartað undan því að arkitektar taki almennt ekki þátt í opinberri umræðu en fagnað auknum áhuga almennings á málefninu – þar er hann ólíkur Guðmundi Kristjáni Jónssyni. Þetta má til dæmis lesa í grein Hilmars um nýja hótelbyggingu í Lækjargötu en þar skrifar hann:
Þriðja atriðið og það sem mestu máli skiptir í þessum framgangi í umræðu um arkitektúr og skipulag er að fólk almennt er farið að hafa meiri áhuga á efninu en verið hefur og hefur áttað sig á að umræðan og skoðanir þess skiptir máli. Það segir að umhverfið sé of mikils virði til að láta arkitekta, fjárfesta og stjórnmálamenn eina um málið.
Almennir borgarar eru í ört vaxandi mæli farnir að hafa skoðun á skipulags- og byggingarmálum og láta hana hiklaust í ljós.
Því ber að fagna.
Ég fyrir minn hlut hef ég nokkrar áhyggjur af þessari tillögu að nýju hóteli við Lækjargötu. Hún tekur ekki mið af þeim húsum sem fyrir eru í götunlínunni til beggja handa við húsið og húsanna handan götunnar. Hún tekur ekki mið af og þeim vísbendingum sem Kvosarskipulagið gaf fyrirheit um. Þá er ég ekki bara að tala um hæð hússins eða nýtingarhlutfall (sem er að sögn minna en deiliskipulagið leyfir).
Ég er að hugsa um arkitektóniska nálgun, gluggasetningu, efnisval, þök og fl. sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Heldur skynjar maður þetta, þetta er líka tilfinningamál eða innsæji sem ástæðulaust er að vanmeta. Tillöguna skortir tillitssemi og skilning á því andrými sem er að finna í götunni, andrými sem fólk vill viðhalda. Höfundarnir og dómnefnd virðast ekki hafa fylgst með umræðunni og/eða ekki hafa sama skilning á mikilvægi götunnar og flestir þeir sem um þessi mál véla eða tekið þátt i umræðunni.
Sú skoðun er mjög útbreidd að umrædd tillaga að hóteli á horni Lækjargötu og Vonarstrætis séu afar misheppnuð. Þessar tillögur hafa meira að segja orðið eins konar tákn um hraða og vanhugsaða uppbyggingu í borginni á tíma byggingarbólu og hótelæðis.
Í grein Guðmundar Kristjáns Jónssonar koma fram skýringar á þessu, hann telur beinlínis að ekki sé hægt að kenna arkitektum um þetta, þeir séu auðsveipir þjónar sem fái ekki að vinna störf sín almennilega.
Það sem fylgir hinsvegar sjaldan umræðunni um hótelið á Lækjargötu 12 er að tillögurnar sem þar komu fram eru afrakstur meingallaðrar, lokaðrar, málamynda-samkeppni þar sem tími til að skila inn tillögum var naumur, dómnefndin var eingöngu skipuð fulltrúum eigenda, dómarar voru allir karlmenn á svipuðu reiki og enginn þeirra með fagþekkingu á sviði arkitektúrs eða skipulags.
Samt setti borgin viss skilyrði, segir Guðmundur:
Dómnefndinni til varnar réði hún sér arkitekt sem veita átti faglega aðstoð en hann starfaði jafnframt sem ritari dómnefndarinnar. Til viðbótar við arkitektinn var verkfræðingur ráðinn trúnaðar- og umsjónarmaður samkeppninnar en hann var jafnframt verkefnisstjóri. Loks má gera ráð fyrir að eigendur hafi notið ráðgjafar borgarinnar við gerð samkeppnislýsingarinnar en í henni voru þrátt fyrir allt sett fram ýmis góð og gild markmið, meðal annars að:
Að ná fram góðri skipulagslausn fyrir samkeppnissvæðið í takt við miðborgina og nærumhverfið með áherslu á umhverfisleg- og samfélagsleg gæði hins manngerða umhverfis.
Að útlit hótelsins taki mið af stíl bygginganna í kring.
Æskilegt sé að þakgerð og gluggasetning hótels verði í svipuðum stíl og húsa í nágrenninu.
Það er alveg ljóst af því hvernig hótelteikningin lítur út að engu af þessum skilyrðum hefur verið fullnægt. Það er ekki tekið mið af byggingum í kring, þakgerð og gluggasetning er ekki í samræmi við nálæg hús. Guðmundur dregur heldur ekki dul á að markmiðið hafi verið að kreista fram eins mikið byggingamagn á lóðinni og hægt er. Út á það ganga svo til allar byggingaframkvæmdir í Miðborginni um þessar mundir – og það hefur til að mynda Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gagnrýnt harðlega. Gagnrýni forsætisráðherrans er reyndar öll mjög í anda þess sem sagt var í frægu viðtali í Silfri Egils árið 2008, það hefur ekkert breyst. Margir telja að þetta viðtal hafi verið örlagavaldur fyrir Sigmund, það sé eitt af því sem leiddi til þess að hann fór út í stjórmál.
Samkvæmt Guðmundi eru arkitektar í raun fórnarlömb í þessu máli öllu. Þeim er vorkunn. Nú er kvartað undan því að það sé ekki „faglegt“ að leggja línur varðandi skrifstofubyggingu fyrir Alþingi, en það sem Guðmundur lýsir í grein sinni er líka langt frá því að vera faglegt.
Niðurstaða keppninnar var því alltaf fyrirfram gefin að stærstum hluta enda búið að leggja línurnar löngu áður en útvaldar arkitektastofur fengu örlítið tækifæri á að gera það besta úr vonlausum aðstæðum á örstuttum tíma fyrir sáralítil laun.
Í raun felast mikil tíðindi í grein Guðmundar. Þarna segir maður sem gjörþekkir væntanlega til mála að arkitektar séu sáróánægðir, já, í raun mjög óhamingjusamir, með hvernig uppbyggingunni í Miðborginni er háttað. Sjálfir heyrast þeir hins vegar ekki kvarta mikið, enda verkefnin væntanlega næg um þessar mundir. En er þá ekki kominn tími til að staldra við?
