fbpx
Fimmtudagur 13.nóvember 2025
Eyjan

Fjarstýringin sem talar bara ensku

Egill Helgason
Mánudaginn 28. desember 2015 10:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég upplýsti í gær að að inn á heimili mitt hefði komið fjarstýring sem er þess eðlis að hægt er að tala við hana – en þó einungis á heimsmálinu ensku. Raddstýrt tæki semsagt.

Össur Skarphéðinsson greip þetta á lofti og skrifaði hugleiðingu á Facebook um þá framtíð sem býr í raddstýrðum róbotum sem gæti verið að finna mjög víða innan tíðar – á heimilum, vinnustöðum, sjúkrahúsum, í bifreiðum. Össur segir að í dvergsmáu samfélagi kalli þetta á varnir.

Ef við íslenskuvæðum ekki þessa tækni jafnharðan sem hún er beisluð í daglega lífinu er hætt við að það verði ekki bara Egill Helgason sem röflar við heimilistækin sín á ensku – heldur heil þjóð. Án viðnáms gæti enskan hæglega tekið yfir samskipti okkar og tölvustýrðu róbótana sem við munum innan örfárra ára kaupa í öllum Elkóum landsins. Málvísindabrekkur segja að jafnskjótt sem enskan tekur yfir eitt svið sé líklegt að hún ryðjist yfir fleiri. Þá fer að sneiðast um hólmann þar sem barist er. Hvað gefum við íslenskunni þá langan tíma? Þrjár kynslóðir? Fjórar? Kannski fimm eða sex. Varla mikið meira.

Össur bendir á að þessi þróun sé þó fjarri því að vera óhjákvæmileg:

Íslenskuvæðing samskipta okkar við raddstýrðar tölvur og róbóta kostar 1-2 milljarða, eða hundrað milljónir á ári í einn eða tvo áratugi – segja sérfræðingar. Það er ekki hátt verð fyrir eitt stykki tungumál. Hér hefur Illugi menntamálaráðherra dauðafæri til að gera orðstír sinn langlífan í landinu.

Út frá þessu spunnust nokkrar umræður á Facebook. Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri Eplis, umboðsaðila Apple á Íslandi, skrifaði til dæmis:

Orð í tíma töluð, stjórnmálamenn samtímans geta lagt á vogaskálarnar og eytt einhverjum smá tíma og rætt við mennina sem stýra þessari þróun.

En svo er alltaf spurningin sem við megum alveg spyrja okkur. Hvers vegna að halda í íslenskuna? Við höfum ekki annað en gott af því að velta þessu fyrir okkur. Jón Pétur Líndal setti fram þennan nokkuð ögrandi texta:

Það eru nú fleiri hliðar á þessu máli, íslenskan stendur framþróun á Íslandi verulega fyrir þrifum, það fer allt púðrið hjá menntamönnum í að læra ensku svo þeir geti orðið samkeppnisfærir við að finna upp tækni sem gerir fólki lífið léttara. Fyrir vikið kemur fátt gáfulegt frá Íslendingum. Þessi barátta fyrir þessu vonlausa máli, íslenskunni er þar að auki öll á misskilningi byggð. Þegar landið var numið var hér talað alþjóðlegt mál sem einnig var talað á stórum hluta norðurlandanna, Englandi og norður Evrópu. Það besta sem Íslendingar gætu gert í þessu máli væri að hætta að berjast við að viðhalda þeim myrku miðöldum sem hér ríktu á þeim tíma sem tungumál landsins hætti að vera alþjóðlegt og breyttist í það eina tákn sem eftir lifir um einangrun og afskermingu landsins frá umheiminum í hundruð ára. Hættum þessari vitleysu og tökum aftur upp alþjóðlegt tungumál og notum svo kraftana og menntunina í eitthvað þarflegt.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt