fbpx
Fimmtudagur 13.nóvember 2025
Eyjan

Jólakort Sigmundar Davíðs

Egill Helgason
Sunnudaginn 27. desember 2015 18:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er vandmeðfarið að byggja nýtt í gömlum stíl. Og þá er líka alltaf spurning um hversu langt á að ganga í að eltast við það gamla. Á að byggja alveg eins eða nota gamlar byggingar sem viðmið?

Síðarnefnda aðferðin var notuð við uppbyggingu í Aðalstræti, út við hornið á Suðurgötu. Þar voru reist hús sem minna á Uppsali sem þarna stóðu og Fjalaköttinn sem var aðeins norðar í götunni. Ég veit að sumir eru hrifnir af þessu, en sjálfum hefur mér alltaf fundist þetta klastur. Minnir helst á Nikolaihverfið í Berlín, en þar ætluðu kommar að endurreisa fyrrum elsta bæjarhluta borgarinnar til vegs og virðingar. Tókst ekki betur en svo að útkoman varð blanda af gömlum formum og plattenbau.

Annað dæmi er endurbygging húsa sem brunnu á horni Austurstrætis og Lækjargötu árið 2007. Þar var eitt hús byggt sem næst í upprunalegri mynd, hún hafði reyndar tapast fyrir löngu síðan í endalausum viðbyggingum. Það sem blasti við eftir enduruppbygginguna var eitthvað sem meira að segja elstu Reykvíkingar könnuðust ekkert við. En svo var valin allt önnur leið með næsta hús – þar blönduðust saman við nútímalegri form og húsið var hækkað um eina hæð sem gerir það hálf ankanalegt.

Með uppbyggingunni þarna hefði máski verið tækifæri til að blása lífi í hið steindauða Lækjartorg – en það var ekki nýtt.

Þriðja dæmið eru húsin á Laugavegi 4-6. Þar hafði líka verið tjaslað saman miklum viðbyggingum svo upphafleg mynd húsanna var algjörlega horfin úr minni borgarbúa. Breytingarnar voru gerðar í tímans rás svo húsin féllu betur að þörfum verslunar. Hin upprunalega mynd, eða sem næst, var hins vegar endurvakin þegar húsin voru gerð upp – með ærnum kostnaði. Út úr dæminu komu tvö hús sem hvorugt henta sérlega vel til verslunarrekstrar.

En þetta tókst ekki betur en svo að nú á aftur að fara að framkvæma á svæðinu, byggja stærra, grafa og sprengja skilst manni – nágrannar eru ekki par ánægðir með þær fyrirætlanir. En þetta sýnir glöggt hversu misheppnuð þessi enduruppbygging var.

Forsætisráðherra er svo mikið niðri fyrir varðandi byggingu skrifstofuhúss fyrir Alþingi eftir æskuteikningu Guðjóns Samúelssonar að hann sendir út jólakort með mynd af því hvernig húsið gæti litið út. Alþingi hefur samþykkt á fjárlögum að setja 75 milljónir í verkefnið með eftirfarandi fororði:

Við undirbúning framkvæmda skal hafa hliðsjón af þeim áformum sem uppi voru um uppbyggingu á Alþingisreitnum fullveldisárið 1918, sbr. fyrirliggjandi teikningar Guðjóns Samúelssonar fyrrverandi húsameistara ríkisins og áform um minningarviðburði sem tengjast komandi aldarafmæli fullveldis Íslands.

Á jólakorti Sigmundar Davíðs lítur þetta allt mjög fallega út. Húsið er tölvuteiknað og rækilega upplýst. Það stingur í stúf, því almennt er Reykjavík sérlega illa lýst borg. Á myndinni eru meira að segja falleg snjókorn. Húsið er í klassískum stíl, ber ekki sterk höfundareinkenni – þetta er frá tímanum áður en Guðjón Samúelsson fór að móta sinn eigin stíl í byggingalist. Þetta er í raun mjög dönsk bygging, enda lærði Guðjón arkitektúr í Danmörku.

Í áliti fjárlaganefndar er talað um „hliðsjón“ af teikningu Guðjóns, eins og lesa má hér að ofan. Varaformaður fjárlaganefndarinnar, Guðlaugur Þór Þórðarson, áréttaði þetta þegar hann sagði að væri ekki verið að „hanna eitt eða neitt hús hér með þessum 75 milljónum“. Guðlaugur sagði ennfremur að samkvæmt lögum þyrfti að bjóða út bæði hönnun og byggingu hússins.

En hér verður ekki bæði haldið og sleppt. Annað hvort byggja menn húsið í þessum aldargamla stíl eða ekki. Að blanda saman þessari gömlu teikningu við nútímaleg form getur varla orðið annað en klastur – eins og við sjáum dæmi um sums staðar í Reykjavík.

 

Screen Shot 2015-12-27 at 17.37.01

 

Jólakort Sigmundar Davíðs með tölvuteikningu af húsi eftir Guðjón Samúelsson sem aldrei reis. Guðjóni var á sinni tíð úthlutað hérumbil öllum opinberum byggingaverkefnum á Íslandi, hann fékk að reisa stærstu húsin,  á bestu byggingarlóðunum, svo mjög að öðrum arkitektum var illa misboðið. Það er dálítið kaldhæðnislegt ef enn rísa hús eftir hann – 65 árum eftir að hann lést.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum

Reynir Traustason: Mikil mistök að sameinast Kjarnanum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt

Orðið á götunni: Guðrún vill minnka allt