

Þetta er ekkert jólaleg mynd. Bíðum með það þangað til aðeins seinna. En hér má sjá aðra af helstu versunargötum bæjarins, Skólavörðustíg – mér sýnist að myndin hljóti að vera tekin seint á áttunda áratugnum. Þá var maður ungur maður á þessari götu. Hún er reyndar enn ein aðalgatan í lífi mínu. Á þessum tíma drakk ég kaffi á Mokka, en nú fer ég oftar á Kaffifélagið til hans Einars sem er hinum megin við götuna, ögn ofar.
Og svo er konan mín með búð þarna rétt handan við horn sem sést þó ekki á myndinni, niður í Bergstaðastrætinu. Þar skilst mér að hafi eitt sinn verið tómthúsbýli sem kallaðist Litlu-Bergsstaðir. Ég þarf reyndar að flýta mér, er að fara að aðstoða hana þar núna – á morgni aðfangadags.
Ef við rekjum okkur upp eftir götunni eins og hún var á þessum tíma sjáum við neðst húsið þar sem fornbókaverslunin Bókin var til húsa. Þar réðu ríkjum miklir ágætismenn, Gunnar Valdimarsson og Snær Jóhannesson. Búðin var líklega komin niður á Laugaveg þegar þessi mynd var tekin. Þarna var, og er enn gengt í gegnum port, þá inn í samkomuhúsið Breiðfirðingabúð. Þar var um tíma dálítið einkennilegt náttúrugripasafn sem Stuðmenn gerðu sér mat úr í Með allt á hreinu.
Gullsmíðabúð minnir mig að hafi verið næst fyrir ofan og svo Gjafahúsið með bastkörfum og ýmsu slíku dóti, en enn ofar má sjá skilti Péturs rakara. Pétur var mjög skrautlegur maður, klippti menn en var jafnframt umboðsmaður hljómsveita. Kúnninn sat í stólnum hjá Pétri sem talaði þá oft hástöfum í síma – snúrusíma því þá voru engir farsímar – og bókaði hljómsveitir í ýmsa viðburði.
Svo má sjá leikfangaverslun uppi við hornið á Bergstaðastræti, þar mun hafa verið Bergshús þar sem Þórbergur bjó á tíma Ofvitans, semsagt ódauðlegt hús í bókmenntunum. Svo er ofar stórhýsi þar sem var á sínum tíma Skömmtunarskrifstofa ríkisins, alræmd starfsemi á tíma haftanna. En það var fyrir mína tíð.
Öll litlu timburhúsin í lengjunni sem þarna sést hafa verið rifin og ný hús byggð í staðinn. Húsin sem komu í staðin eru ekki öll sérlega falleg en Skólavörðustígurinn dafnar gatna best. Kannski er engin miðbæjargata í bænum jafn aðlaðandi. Kaffifélagið hans Einars er svona um það bil þar sem Pétur rakari var. Best að fara að drífa sig þangað – hann ætlaði að opna klukkan tíu.
