
Það verður að segjast eins og er að það er furðulega gamaldags hugmynd að fara fram á það, á tíma þegar hefðbundnir fjölmiðlar eiga mjög í vök að verjast, að allt sjónvarpsefni verði textað á íslensku.
Erlent fjölmiðlaefni streymir inn í landið á internetinu og vitund þjóðarinnar er galopin fyrir því, í gegnum efnisveitur eins og Netflix, Hulu, iTunes og HBO, og svo í gegnum YouTube og allar deilisíðurnar. Þar er enginn íslenskur texti og ekki nokkur leið að koma því við að setja hann inn.
Neysla sjónvarpsefnis fer í æ minna mæli fram í gegnum hefðbundna sjónvarpsdagskrá. Það er jafnvel að renna upp sú tíð að ungt fólk noti sjónvarp ekki með þeim hætti – ekki fremur en það les dagblöð.
Ríkísútvarpið gæti kannski klórað sig fram úr þessu með því að taka fé frá annarri starfsemi, það hefur jú skylduáskriftina, en það er ekkert leyndarmál að áskrifendum Stöðvar 2 hefur fækkað mikið síðustu árin – þar er „tekjumódelið“ nánast hrunið eins og sagt er. Fyrir litlar stöðvar sem byggja nær eingöngu á töluðu efni eins og N4, Hringbraut og ÍNN yrði þetta mjög þungur baggi, enda segir Ingvi Hrafn Jónsson í viðtali við Morgunblaðið í dag að kostnaðurinn yrði slíkur að það myndi beinlínis „slökkva á ÍNN“.