

Hér eru tvær myndir af nokkuð mörgum sem voru settar inn á vefinn Gamlar ljósmyndir – af Ólafi Ólafssyni. Þær eru greinilega frá því á 8. áratugnum. Þessar tvær myndir eru báðar af Laugaveginum. Á þeim má greina borgarbrag sem er ansi mikið öðruvísi en nú er.
Fyrri myndin sýnir verslunina Adam sem var þarna um tíma á horni Frakkastígs. Fyrst var þessi verslun reyndar í Vesturveri, þar sem Mogginn var einnig til húsa, – það dæmi þótti afar smart og verslunarstjóri var sjálfur Jónas R. Jónsson. Eplalógóið hefur löngum verið vinsælt eins og sjá má. Síðar var þarna reist stærri bygging þar sem er verslunin Herrahúsið.

Neðri myndin er tekin við hornið á Vitastíg. Þarna má glöggt sjá niðurníðsluna sem var á timburhúsunum í þá daga, enda töldu flestir að þeirra biði ekki annað en niðurrif.
