

Einhvern tíma hefði maður orðið starstruck yfir þessu og yrði sjálfsagt enn.
Þessi mynd birtist á Facebook-síðu Landsbókasafns og sýnir Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur landsbókavörð ásamt þýska kvikmyndaleikstjóranum Werner Herzog.
Herzog var ein helsta kvikmyndahetja unglingsára minna og fram á fullorðinsár. Kvikmyndir eins og Kaspar Hauser, Glerhjartað, Aguirre, Woyzeck, Fitzcarraldo voru sýndar hér og nutu mikilla vinsælda, sérstaklega meðal ungs fólks. Þetta var tími þýsku nýbylgjunnar, Fassbinders, Wenders, Schlöndorffs, Wim Wenders og Margarethe Von Trotta – sem er víst gestur hér á Riff-hátíðinni.
En Herzog höfðaði einna mest til mín, frumleikinn í verkum hans, dulúðin og dýptin – og hversu langt hann var tilbúinn að ganga til að gera myndir sínar.
Herzog hefur líka gert heimildarmyndir sem eru ekki síður merkar en hinar leiknu myndir hans – þær hafa í raun verið stærri þáttur í ferli hans allt frá upphafi og stundum hefur hann lagt á sig mikið erfiði vegna þeirra, allt frá því hann gerði Fata Morgana í Sahara eyðimörkinni 1969. Af nýlegri heimildarmyndum Herzogs má nefna Grizzly Man, The Cave of Forgotten Dreams og Happy People: A Year in the Taiga.
Á síðu Landsbókasafnsins segir að Herzog hafi komið þangað til að mynda handrit Jóns Steingrímssonar eldklerks. Það er forvitnilegt. Eldrit Jóns er varðveitt á Landsbókasafninu, það var ritað 1788 og er helsta samtímaheimildin um eldgosið mikla í Lakagígum sem olli Móðuharðindunum.
