

Það er stíll talsmanna Ísraelsstjórnar að fara strax upp á hástig lýsingarorða ef andað er á Ísraelsríki, þeir rífast og skammast og láta öllum illum látum.
Viðskiptabann – eða hvað á að kalla það – Reykjavíkurborgar á Ísrael mun ekki hafa nein áhrif í þá veru að hingað komi færri ferðamenn eða neitt slíkt.
Það dregur hins vegar athyglina að því að í Palestínu er ein þjóð að neita annarri um einfaldasta tilverurétt (sjá kort að neðan) – og að viðbrögð alheimsins við því eru skammarlega lítil.
Á einum stað var því velt upp hví Reykjavík sniðgengi ekki lönd eins og Íran, Sómalíu, Norður-Kóreu og Sýrland. Ekki held ég að Reykjavík eigi mikil viðskipti við þessi ríki, varla nein – en þetta er góð samlíking, því Ísrael passar ágætlega í þennan hóp.
Össur Skarphéðinsson beitti sér fyrir því í utanríkisráðherratíð sinni að Ísland viðurkenndi sjálfstæði Palestínu og var það honum til mikils sóma. Þetta var árið 2011. Þetta vakti líka reiði í Ísrael, hvað annað? Og þá eins og nú var talað fjálglega um gyðingahatur – það er hið eilífa mælskubragð þegar glæpir Ísraelsstjórnar eru gagnrýndir.
Össur ritaði á Facebook-síðu sína í dag:
Hvað sem mönnum finnst um samþykkt borgarstjórnar um að sniðganga vörur frá Ísrael er út í hött að nefna það til marks um andúð á gyðingum. Aðskilnaðarstefnan í S-Afríku var brotin á bak aftur með viðskiptabanni. Dettur einhverjum í hug að undirrót þess hafi verið hatur á hvítum mönnum?

En það er merkilegt að meðan þessi umræða fer fram gleymum við að tala um flóttamenn frá Sýrlandi. Það fellur alveg í skuggann. Hvað er að gerast í þeim málum? Ætlar ríkisstjórn Íslands að taka á móti flóttamönnum, og þá umtalsvert fleiri en þessum fimmtíu sem gert var ráð fyrir, eða er verið að þæfa málið? Er kannski ágreiningur innan stjórnarinnar – eða ráðherrahópsins sem var skipaður til að fjalla um málið?