

Bankakerfið á Íslandi er óskapnaður, það er eins og ríki í ríkinu, og reyndar meira en það, bankakerfið hefur eindregna tilhneigingu til að vaxa ríkinu yfir höfuð. Bankakerfið var endurreist fyrir almannafé eftir hrun – þrátt fyrir að hafa í raun valdið hruninu – og síðan þá hefur hagnaður þess verið stjarnfræðilegur, einkum sé miðað við stærð þjóðarbúsins. Bankarnir eru gráðugir og samfélagsvitund þeirra er á mjög lágu stigi.
Það er eiginlega merkilegt hversu lítið þessu er andæft á landinu – það virðist til dæmis ekki vera nein hreyfing í þá átt að stöðva þá tilheigingu bankanna að leggja á „þjónustugjöld“ fyrir alla skapaða hluti, já, fyrir hluti sem hafa alltaf þótt sjálfsagður partur af bankaþjónustu. Fólk er meira að segja farið að borga fyrir að fá að taka launin, sem því er gert skylt að setja í banka, út úr þeim aftur.
Það mætti halda að stjórnmálakerfið sé í vasanum á bönkunum – allavega sá hluti sem er ekki í vasanum á útgerðinni.
Nokkrir hugsjónamenn hafa þó andæft þessu og er þar fremstur í flokki Frosti Sigurjónsson. Á flokksþingi Framsóknar í apríl síðastliðnum var samþykkt tillaga frá Frosta um að Landsbankinn yrði áfram í ríkiseigu, hann yrði gerður að svokölluðum samfélagsbanka. Ályktunin er mjög skýr:
Landsbankinn verði samfélagsbanki í eigu þjóðarinnar með það markmiði að þjóna samfélaginu í stað þess að hámarka hagnað. Til að bregðast við fákeppni á bankamarkaði er nauðsynlegt að Landsbankinn hafi þann tilgang að bjóða góða þjónustu á bestu kjörum til að efla samkeppni í bankaþjónustu á landsvísu. Landsbankinn verði bakhjarl sparisjóðakerfisins.
En nú verður að segjast eins og er, það virðist ekkert hafa verið gert með þessa tillögu. Hún virðist ekki hafa fengið neina vitræna skoðun eða umfjöllun. Samfélagsbankanum var vísað í ystu myrkur – og nú stendur til að selja Landsbankann.
Fyrir þá sem mæla allt í hagnaði til eigenda og hluthafa og sjá ekki að neitt annað geti verið mælistika í viðskiptum, virkar samfélagsbanki líklega hlægilegur. Maður hefur heyrt hláturinn óma.
En það er löngu kominn tími til að fara nýjar leiðir í bankaþjónustu. Módelið sem var hér fyrir hrun og var endurvakið eftir hrun er svo viðsjárvert að það hefur tilhneigingu til að valda sjálfu sér og samfélaginu í heild miklum skaða. Í því sambandi má nefna að Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2010, stuttu eftir bankahrun, runnu til þriggja banka sem töldust vera „félagslega ábyrgir“.
