
Við getum breytt „skopmyndinni“ sem birtist í Morgunblaðinu í dag aðeins í huganum.
Fólkið sem er haft svart á myndinni er þá gyðingar.
Skipið verður að járnbrautarlest.
Árið 1942, 1943 eða 1944.
Og undir stendur að þetta séu „helfarartúristar“ – á leið í dauðann.
Þetta er fullkomlega sambærilegt.
Og ef við hugsum um þetta svona sjáum við hversu viðhorf konunnar sem álpaðist inn í borgarstjórn fyrir Framsóknarflokkinn eru fáránleg.
Hvað tóku gyðingarnir, sem voru að bjarga lífi sínu undan nasistum, frá öldruðum í löndunum sem þeir komu til? Erum við ekki enn með skömmustutilfinningu yfir því að fleiri gyðingum var ekki bjargað? Hvers vegna gerðu lýðræðisríkin ekki meira?
Og jú, það voru notuð ýmis undanbrögð til að hamla för gyðinga á þessum tíma – kynþáttaandúðin er kannski ekki jafn opinská og þá var, en hún er vissulega til staðar, hún er lævíslegri og fer vaxandi. Fer eiginlega ekki í felur lengur.
Annars ætti maður varla að þurfa að árétta það enn einu sinni að það eru innflytjendur sem yfirleitt sinna verst launuðu og vanþakklátustu störfunum í heilbrigðis- og umönnunarkerfinu. Án þeirra væri einfaldlega ekki hægt að reka spítala, ellliheimili og aðra velferðarþjónustu. Þeir eru einfaldlega undirstaðan undir öllu sýsteminu.