
Ekki verður séð að lífskjör þjóða versni við að taka á móti innflytjendum. Það er eiginlega þvert á móti – kakan stækkar, eins og það er stundum orðað í umræðum um hagstjórn. Fyrstu kynslóðar innflytjendur hafa tilhneigingu til að safnast saman í ákveðnar starfsgreinar sem innfæddir vilja oft ekki sinna eða líta jafnvel niður á. Þrif, umönnunarstörf, verksmiðjustörf, verslun og veitingarekstur.
Við getum nefnt Svíþjóð, Danmörku og Kanada – lönd þar sem ríkir dæmalaus velmegun – við höfum varla nein dæmi í sögunni um svo almenna velmegun. Þetta eru ríki sem hafa tekið á móti miklum fjölda innflytjenda. Kanada er reyndar byggt um á innflytjendum, þar voru ekki fyrir nema þeir sem kallast frumbyggjar eða fyrstu þjóðirnar. Kanadamenn taka að meðaltali við um 250 þúsund innflytjendum á ári.
„If you break it, you own it,“ var haft eftir Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á tíma Íraksstríðsins. Bandaríkjamenn og Bretar réðust inn í Írak með atbeina viljugra þjóða eins og Íslands. Nú má ljóst vera að þetta var eitthvert dæmalausasta feigðarflan í sögu mannkyns, gæti verið kafli í bókinni Framrás heimskunnar eftir Barbara Tuchman. Árásaraðilunum í þessu stríði hefur heldur ekki tekist að lifa eftir orðum Powells. Styrjöldin gat af sér blóðugt borgarastríð í Írak sem síðan færðist yfir til Sýrlands – þar sem ástandið hefur orðið ennþá verra.
Milli þriðjungur og helmingur íbúa Sýrlands er á flótta undan stríðinu. En vestrænar þjóðir eru ráðalausar, þær geta ekki sett saman það sem þær brutu. Hernaðarleg inngrip eru mjög fálmkennd, felast einkum í loftárásum sem virðast ekki hafa sérlega mikil áhrif. Spyrja má hvort þarna sé ekki átakasvæði sem kallar á alvöru hernaðarlega íhlutun. Slíkt er hins vegar mjög óvinsælt eftir tíma Íraksstríðsins – jú, eiginlega óhugsandi. Um tíma heyrðist hugtakið „mannúðleg hernaðaríhlutun“ oft, en svo er ekki lengur. Sumir forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum eru stóryrtir, en í raun leggur enginn neitt slíkt til í alvöru. Á meðan aukast þjáningar íbúa Sýrlands og æ fleiri leggja á flótta.