

Kosningar í Grikklandi 20. september munu ekki leysa neinn vanda – líklega fremur auka á hann. Nú situr bráðabirgðastjórn undir forystu Vassiliki Thanou, hún er hæstaréttardómari og fyrsta kona til að verða forsætisráðherra í Grikklandi. En hún ræður auðvitað ekki neinu, vandinn verður að mynda stjórn eftir kosningarnar.
Alexis Tsipras er enn vinsæll, flokki hans Syriza er spáð flestum atkvæðum í kosningunum, en þó ekki nema 23 prósentum, sem þýðir að hann er langt frá því að geta myndað stjórn. Þeir sem klufu sig úr flokki hans, og mynduðu flokk sem má kalla Sameiningarflokk alþýðu, rétt slefast yfir 3 prósentin sem þarf til að komast á þing.
Vinstrið er aftur margklofið eftir að hafa náð saman í Syriza. Panagiotis Lafazanis var ráðherra uppbyggingar og umhverfis í ríkisstjórn Syriza, en er nú leiðtogi Sameiningarflokksins. Zoe Konstantinopolou, þingforseti sem líka var í uppreisnarliðinu í Syriza, er líka þar, hyggst stofna sinn eigin flokk en ætlar þó að vera í kosningabandalagi með Lafazanis. Hugsanlega er hún þó brunnin inni á tíma með það.
Mikill meirihluti Grikkja er óánægður með þá ákvörðun að halda kosningar og telja þær ótímabærar. Líklegt er að margir kjósi að sitja heima. Þetta eru fimmtu kosningarnar á sex árum. Eftir þær verður ekki annað til ráða en að mynda samsteypustjórn sem varla situr lengi – og hefur tæplega afl til að koma í gegn umbótum sem eru svo nauðsynlegar.
Tsipras segist ekki munu vinna með hægri flokknum Nea Demokratia né hinum uppdáttarsjúka jafnaðarmannaflokki Pasok – það eru hinir hefðbundnu valdaflokkar Grikklands. Hann vill heldur ekki vinna með Potami sem er eins konar Björt framtíð Grikklands. Slitin milli Tsipras og fyrrverandi fjármálaráðherrans, Yannis Varoufakis, eru algjör. Tsipras sagði í sjónvarpsviðtali í fyrradag að Varoufakis hefði tapað trúverðugleika sínum. Hann hafi talað við viðsemjendur Grikkja enginn hafi hlustað á hann lengur.
Fyrir vinstrið er þetta meiriháttar áfall. Ríkisstjórn Syriza kom engu í verk af því sem hún lofaði að gera. Uppi voru vangaveltur um að Syriza gæti verið fyrirmynd fyrir „nýtt vinstri“ í Evrópu. Sú von virðist vera orðin að engu. Nýja vinstrið hefur steytt á skeri í Grikklandi.

Alexis Tsipras nýtur enn vinsælda, enda fáir aðrir leiðtogar í sjónmáli. En grískur almenningur vill ekki nýjar kosningar, enda er líklegasta útkoman veik samsteypustjórn.