
Ég les að háskólakennari á Akureyri nefnir mig og einhverja fleiri sem skuggastjórnendur umræðu á Íslandi. Þetta er sérkennileg kenning og býsna langsótt. Eins og staðan er fjölmiðlum og þó aðallega á samskiptamiðlum er ljóst að enginn stjórnar umræðunni. Mogginn gat það í eina tíð – altént fyrir ákveðinn hóp.
Þjóðfélagsumræðan núna er eins og fuglabjarg. Eitt sinn var útvarpsþáttur sem hét Þjóðarsálin og þar hringdi fólk inn og sagði meiningu sína. Nú geta allir sagt meiningu sína undireins og umbúðalaust. Þjóðarsálin er alltumlykjandi. Einhverju er skotið á loft og það fær kannski byr undir vængi eða er jafnóðum skotið niður af algjöru miskunnarleysi. Eftir smátíma, kannski bara nokkrar klukkustundir, verða allir leiðir.
Stjórnmálamenn verða illa fyrir barðinu á þessu. Svo mikil fyrirlitning ríkir á hefðbundnum stjórnmálamönnum að þeim er að sumu leyti vorkunn. Maður spyr hvenær fer eins fyrir Pírötum – ef þeir kæmust til valda væri þess ekki lengi að bíða.
Fólk er líka hætt að vera orðvart. Menn segja meiningu sína umbúðalaust á Facebook og í athugasemdakerfum. Kurteisi og hógværð er ekki í hávegum á þeim vettvangi. Að sumu leyti er það máski gott, flokkshollustan fer ört minnkandi en um leið hefur opnast veita fyrir ógeðfelldar skoðanir sem hafa legið í þagnargildi – þar sem er gert út á mannhatur og ofbeldi – líkt og þýska sjónvarpskonan Anja Reschke benti á í frægri ræðu nýskeð.
Þeim sem lesa blöð fer ört fækkandi. Fjölmiðlar sem áður mótuðu skoðanir eru bara partur af kliðnum. Hjá ungu fólki er nánast óþekkt að gerast áskrifandi að blaði. Ritstjórnir eru ekki nema svipur hjá sjón frá því sem áður var. Blaðamenn sitja við tölvur og pikka fréttir upp af Facebook. Fréttunum er síðan deilt á Facebook og það verður svo efni í aðrar fréttir. Þetta er furðulegur og stundum nokkuð afskræmislegur speglasalur. Það er gríðarlegt offramboð á skoðunum og túlkunum, skortur á áreiðanlegum upplýsingum.
Í svona umhverfi er mikið og flókið verk að stjórna umræðu og þarf stundum mikið til. Margir láta sér líka nægja að rugla umræðuna – það getur verið nóg. Við sjáum til dæmis hvernig farið er að í Rússlandi Pútíns. Þar hefur verið sett á laggirnar heil stofnun sem hefur það hlutverk að blanda sér í umræður á samskiptamiðlum, dreifa áróðri, þyrla upp ryki, rugla og blekkja.