

Akureyri var valinn heitasti áfangastaður í Evrópu af ferðavefnum Lonely Planet. En það hefur ekki verið heitt á Akureyri í sumar, ekki fyrr en í gær þegar brast á norðlensk blíða, hiti og stafalogn og Eyjafjörður skartaði sínu fegursta.
Akureyri er að taka ótrúlegum breytingum. Þegar maður fór að koma hingað fyrst voru eiginlega engir staðir nema KEA, Bautinn, jú, og svo kom Greifinn til skjalanna. Á kvöldin fór maður í Sjallann. Nú eru erlendir ferðamenn jafnvel enn meira áberandi í bæjarmyndinni á Akureyri en í miðbænum í Reykjavík.
Þessu fylgir náttúrlega mikill uppgangur og hvarvetna hafa opnað nýir veitingastaðir. Það er ekkert víst lengur að maður fái besta matinn í Reykjavík – bara alls ekki. Besti fiskiveitingastaður á Íslandi hefur um nokkurt skeið verið Tjöruhúsið á Ísafirði. Nú er mér sagt að besta sushiið fái maður á Seyðisfirði. Og í gær borðuðum við afbragðsgóðar steikur á glænýjum stað við Ráðhústorgið hér á Akureyri sem nefnist einfaldlega T Bone steikhús – það var heldur ekki sérlega dýrt.

Akureyri í sól og blíðu. Myndin var tekin í gær.