
Í síðasta góðæri (maður þorir varla að nota þetta orð) fjölgaði innflytjendum mjög ört á Íslandi. Þeir teljast nú vera hátt í tíu prósend landsmanna.
Meginástæðan var eftirspurn eftir vinnuafli – fólk kom hingað til þess að vinnu og vegna þess að næga vinnu var að hafa.
Nú stefnir allt í annað góðæri, að minnsta kosti um stundarsakir, og því er spáð að aftur verði mikil fjölgun á innflytjendum. Þetta segir Ásgeir Jónsson hagfræðingur og erfitt er að mótmæla því. Það vantar einfaldlega fólk til að vinna.
Ásgeir telur að fljótlega verði tala landsmanna komin upp í 400 þúsund. Þar verður hlutur innflytjenda talsverður. Hverjir eiga annars að vinna störfin?
Og hann segir líka að innflytjendurnir verði undirstaða hagvaxtarins. Við getum semsagt varla án þeirra verið.
Við skulum samt muna orð rithöfundarins Max Frisch sem sagði um innflytjendurna sem komu til Vestur- og Norður-Evrópu á uppgangstímanum eftir stríðið:
Við báðum um vinnuafl en fengum fólk af holdi og blóði.