

Fyrr í þessum mánuði andaðist í hárri elli sagnfræðingurinn Robert Conquest. Hann var 98 ára. Conquests er einkum minnst fyrir tvær bækur sem fjalla um hina hryllilegu sögu kommúnismans í Sovétríkjunum. Báðar voru tímamótarit, því þegar þær komu út voru glæpirnir enn í þagnargildi víða og áróðursmenn kommúnismans voru enn að störfum ásamt fólki af þeirri tegund sem Lenín sjálfur á að hafa kallað „nytsama sakleysingja“.
Fyrri bókin kom út 1968 og nefndist The Great Terror. Það var heildstætt yfirlit yfir ógnarstjórn Stalíns á tímanum frá 1934 til 1939. Conquest sýndi fram á hversu víðtækar hreinsanirnar voru, seinni tíma gögn hafa staðfest niðurstöður hans og gott betur. Conquest gagnýndi líka fylgispakt meðreiðarfólk kommúnista eins og George Bernard Shaw, Walther Duranty, Jean Paul Sartre og Beatrice og Sidney Webb. Bókin fékk misjafnar viðtökur, afsakendur kommúnismans voru fljótir að bregðast við eins og endrnær, en seinna sagði Conquest að sér hafi dottið í hug að breyta titlinum og kalla hana I Told You So, You Fucking Fools!
Hin bókin er ekki síður merkileg, en hún nefnist The Harvest of Sorrow. Þar lyfti Conquest hulunni af duldum stórglæp tuttugustu aldarinnar, hungursneyðinni sem Stalín og nótar hans framkölluðu í Úkraínu. Þar skyldi svelta fjölmenna þjóð til hlýðni – í raun er það morð með hungri, þjóðarmorð. Atburðirnir eru nú þekktir undir heitinu Holodomor. Á tímanum þegar bókin kom út voru þessar manngerðu hörmungar nánast gleymdar.
Conquest orti líka kvæði og urðu nokkrar af gamanvísum hans fleygar. Þessi er frægust, þarna er saga bolsévíka í fáum línum.
There once was a Bolshie called Lenin
Who did one or two million men in.
That’s a lot to have done in
But where he did one in
That old Bolshie Stalin did ten in!
