

Gus Romaniuk var Kanadamaður af úkraínskum ættum, búsettur í Riverton á Nýja Íslandi. Hann rak verslun og líka hótel sem var kennt við staðinn Sandy Bar, en hann er frægur úr samnefndu kvæði Guttorms J. Guttormssonar. Gus Romaniuk og Guttormur voru vinir og segir Haraldur Bessason, prófessor í íslensku við Manitobaháskóla, frá því í bókinni Dagstund á Fort Garry að Romaniuk hafi kunnað íslensku og verið vel að sér um kveðskap Guttorms. Romaniuk var merkisnáungi, færði í letur ævisögu sína sem þótti býsna góð og nefnist hún Taking Root in Canada. Romaniuk var ungur drengur þegar hann kom frá Úkraínu til Kanada með foreldrum sínum.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég kom í gamalt hús á Nýja Íslandi og sá auglýsingu frá verslun Gus Romaniuks. Hún hékk þar á vegg og nú birti ég af henni mynd hér að neðan. Þar stendur einfaldlega: „Með kveðju frá G. Romaniuk kaupmanni.“ Myndin er af fjallalandslagi sem ekki er að finna á Nýja-Íslandi, minnir helst á Klettafjöllin.
Það mun ekki hafa verið óþekkt að Úkraínumenn sem bjuggu á Nýja Íslandi væru mæltir á íslenska tungu. Þeir gengu í skóla með Íslendingum, þar sem íslenskan gat stundum verið mjög fyrirferðarmikil þótt kennsla ætti að vera á ensku, og úkraínsk börn léku sér við íslensk börn. Og eins munu sumir Íslendingar hafa kunnað hrafl í Úkraínsku. Guttormur Guttormsson var sagður geta komið fyrir sig orði á því máli og eins á tungu Cree-indíána.
Haraldur segir frá því að eitt sinn hafi hann og Sveinn Skorri Höskuldsson setið kvöldlangt með Gus Romaniuk á Sandy Bar hótelinu. Þá hafi hann getað vitnað í ljóð Guttorms vinar síns líkt og hann hefði numið þau af bók. Mun hafa sagt að Sandy Bar, höfuðkvæði Guttorms, sé einhver veglegastur minnisvarði yfir landnema sem um getur. Það má með sanni segja, síðustu línur kvæðisins eru ódauðlegar:
Himinn, landnám landnemanna,
ljómaði yfir Sandy Bar.
Haraldur rifjar í bókinni upp kynni sín við annan Úkraínumann sem kunni nokkuð í íslensku. Sá hét Ted Drabik og hélt um árabil til á veitingahúsi í íslenska byggðarlaginu Árborg. Ted var ölkær, en þegar hann tók að mæðast við drykkjuna fór hann með Tárið eftir Kristján Jónsson fjallaskáld. Það hafa ótal íslenskir drykkjumenn þulið í gegnum tíðina.
Haraldur segir að sér hafi flogið í hug að kenna þessum tárvota Úkraínumanni önnur íslensk kvæði, eitthvað eftir Hannes Hafstein eða Bólu-Hjálmar – kraftmeiri kveðskap sem gæti unnið gegn angurværðinni og treganum. En Haraldur taldi að það gæti orðið Úkraínumanninum um megn og lét þetta eiga sig.
Mörgum árum síðar kom Haraldur aftur til Árborgar og þá sat Ted Drabik enn á sama veitingahúsinu, við sama borð, en drykkjufélagar hans voru horfnir. Ljóðlínurnar varðveitti hann samt enn í krúsarbotni, eins og Haraldur orðar það.
(Það er tilviljun að þessi pistill um vináttu Íslendinga og Úkraínumanna birtist á sama degi og háværar raddir eru um að Íslendinga láti lönd og leið stuðning við Úkraínu – til þess að geta selt svolítið af makríl til Rússlands.)
