
Ég fór í flugi til Ameríku um daginn. Hlustaði á ferðamenn í vélinni tala um Ísland. Meðal orða sem þeir notuðu voru amazing og fabulous. Frábært og stórkostlegt. Þeir töluðu um fegurð náttúrunnar og vingjarnlegt fólk. Þetta var fjölskyldufólk með nokkurn hóp af börnum. Ég hef líka heyrt af heimsfrægri poppstjörnu sem kom til Ísland fyrir nokkrum árum og segir nú öllum vinum sínum að fara þangað.
Það eru varla nokkrar líkur á því að ferðamannastraumnum til Ísland linni. Þvert á móti. Hann á eftir að aukast og hann er meiri en allar spár gerðu ráð fyrir. Tölur eru ótrúlegar. Icelandair flutti 415 þúsund farþega í júlí.
Ísland er stutt frá bæði Bandaríkjunum og Evrópu og helsti kostur þess er hversu auðvelt er að komast út í villta, ósnortna náttúru. Í raun þarf bara að fara örstutt frá Reykjavík og þá er fólk komið á svæði sem nánast virka eins og óbyggðir fyrir fólk úr fjölmennari og þéttbyggðari samfélögum.
En svo hefur Reykjavík líka sinn sjarma sem áfangastaður. Þegar maður reynir að horfa á borgina með augum útlendings er hún nefnilega býsna óvenjuleg. Norðurborg með lágreistum húsum umkringd hafi og fjöllum.
Í þessari grein á vef BBC segir til dæmis um Reykjavík að hún hafi laid-back hipster vibe. Það er svolítið erfitt að þýða. En það stendur líka að íbúarnir séu duglegir, sjálfstæðir og vingjarnlegir og að borgin bjóði upp á menningarlíf sem maður ætti von á að finna í borg með miklu fleiri íbúa.