
Tveir rosknir karlar hrista nú upp í stjórnmálum austan hafs og vestan og menn spyrja jafnvel hvort þarna sé á ferðinni endurborið vinstri, eftir langan tíma þegar vinstri flokkar hafa færst til hægri, játast undir túrbókapítalisma og hnattvæðingu – tíma þegar fjármagnsöfl hafa náð yfirhöndinni og pólitíkin þorir vart að andæfa.
Annars vegar er það Bernie Sanders sem sækist eftir kjöri sem forsetaembætti Demókrata í Bandaríkjunum. Sanders er með meira fylgi en Hillary Clinton í lykilkjördæminu New Hampshire. Hann er fæddur 1941, öldungadeildarþingmaður fyrir Vermont, sem þykir hallast einna lengst til vinstri af ríkjum Bandaríkjanna, hann telur sig vera sósíaldemókrata og á glæsilegan feril að baki í báðum deildum Bandaríkjaþings. Sanders er þar óháður – enginn óháður þingmaður hefur setið lengur en hann á þingi. Síðast var hann endurkjörinn með 77 prósentum atkvæða.
Bernie Sanders talar gegn ójöfnuði, gegn lágum sköttum fyrir ríkt fólk og gegn því að flytja störf burtu frá Bandaríkjunum. Hann talar um jafnt aðgengi að heilsugæslu, um tækifæri til menntunar, útbólgið fangelsiskerfi, gegn ofurvaldi peningaaflanna. Allt hljómar það mjög skynsamlega og tímabært og spurning hvaða áhrif þetta getur haft á kosningabaráttuna í heild sinni. Mikill fjöldi fólks kemur á fundi hjá Sanders, en þó fær hann ekki nándar nærri jafnmikla athygli og trúðslætin í Donald Trump.
Því miður virka fjölmiðlar þannig núorðið.
Og þrátt fyrir hina miklu fundarsókn þykir ólíklegt að Sanders nái því að skáka Hillary Clinton. Bent er á að þeir sem komi á fundi hjá honum sé fólk sem er áhugasamt um stjórnmál, aktívistar jafnvel, en hann sé ekki mikið þekktur utan þess hóps. Meðal Bandaríkjamanna af afrískum og spænskum uppruna sé hann nánast óþekktur, en í þessum hópum njóti Clinton mikils fylgis. Þarna er að finna stóran hluta kjósenda demókrata. Og Sanders á auðvitað ekki nándar nærri eins mikla peninga og Clinton.
Svo er það Jeremy Corbyn í Bretlandi. Hann er ekki síður áhugaverður. Corbyn er að vissu leyti eins og eitthvað úr fortíðinni, frá tímanum áður en Tony Blair umbreytti Verkamannaflokknum, tíma Tonys Benn og Michael Foot. Þá var Verkamannaflokkurinn lengi utan ríkisstjórnar í mikilli eyðimerkurgöngu. Nú bendir allt til þess að Corbyn verði kosinn formaður, en jafnframt eru teikn á lofti um að flokksins bíði langt tímabil þar sem hann kemst ekki í stjórn. Tony Blair nýtur ekki mikillar virðingar núorðið, en hann vann þrennar kosningar. Nú segir hann: „Þið getið hatað mig, en takið samt mark á mér þegar ég segi ykkur að eyðileggja ekki flokkinn með því að kjósa Corbyn.“
Corbyn er að segja hluti sem þurfa að vera í hámæli, um efnahagskerfi sem er ofurselt spákaupmennsku og fasteignabólum. Um ójöfnuðinn sem hefur vaxið mjög í Bretlandi. En hann er fjarskalega umdeild persóna innan Verkamannaflokksins. Stór hluti þingmanna segist ekki vilja vinna með honum. Og það verður reyndar að segjast eins og er að ýmislegt er skrítið við Corbyn. James Bloodworth, sem meðal annars er dálkahöfundur hjá The Independent, skrifar grein þar sem hann segist gagnrýna Corbyn frá vinstri.
Bloodworth segir að Corbyn hegði sér mjög oft undarlega, eins og þegar hann hefur komið til varnar harðstjórum eins og Gaddafi Líbýuforseta, Fidel Castro, Slobodan Milosevic og Hugo Chavez – og hommahataranum Vladimir Putin. Hann hafi líka talið til vina sinna fasískar hreyfingar eins og Hamas og Hezbollah. Hann sé í raun tilbúinn að styðja verstu fanta veraldarinnar – og sé því ekki sérlega trúverðugur þegar hann talar um að vera á bandi lítilmagnans.