

Lófóten er eyjaklasi í Norður-Noregi, rétt norðan við heimskautsbaug. Náttúrufegurð þykir vera mikil þar – sjálfan hefur mig alltaf langað til Lófóten en enn hefur ekki orðið af því.
Loftslag á Lófóten er milt miðað við hnattstöðuna, ekki ósvipað því sem er á Íslandi. Íbúar Lófóten eru um 25 þúsund.
Nú les maður í hinu vinsæla ferðatímariti Condé Nast að Lófóten sé „hið nýja Ísland“. Það sé kominn tími til að fara annað en til Íslands „þegar meira að segja formaður ferðamálaráðs á Íslandi segi að of margir túristar komi til landsins“.
Við getum þó enn huggað okkur við það, eða verið leið yfir því, að erfitt og dýrt er að komast til Lófóten, en auðvelt og ódýrt til Íslands.
