

Það eru Kúrdar sem hafa borið hitann og þungann af baráttunni gegn hinum viðurstyggilegu sveitum ISIS. Við höfum séð hetjulegar myndir frá þessu stríði þar sem ungir Kúrdar, bæði karlar og konur, eru í fremstu víglínu gegn ófögnuðinum. Það voru Kúrdar sem björguðu þúsundum yazida sem ISIS-liðar ætluðu beinlínis að slátra í fyrra.
Maður skyldi ætla að heimsbyggðin kynni Kúrdum þökk fyrir þetta. En klækjastjórnmálin láta ekki að sér hæða. Líkt og blaðamaðurinn Robert Fisk orðar það – Kúrdar voru fæddir til að láta svíkja sig.
Þeir fengu ekki að eiga sitt eigið ríki sem þeim hafði verið lofað eftir fyrri heimsstyrjöldina, heldur lentu í því að vera skipt milli ríkja sem öll fjandsköpuðust við þá – Tyrklands, Írans, Íraks og Sýrlands. En stundum hefur hentað Vesturlöndum að nota Kúrda, eins og nú í baráttunni gegn ISIS. Bandaríkjamenn notuðu Kúrda líka til að berjast gegn Saddam Hussein – sem alltaf var ótrauður við að myrða Kúrda – en einatt urðu kaldrifjaðir stórveldahagsmunir til þess að Kúrdarnir sátu á endanum uppi með sárt ennið – og mikið mannfall.
Nú eru Tyrkir aftur byrjaðir að herja á Kúrdana. Þetta er sérkennilegt laumuspil, Tyrkir láta eins og þeir séu að berjast gegn ISIS en sprengja stöðvar Kúrda í leiðinni. Í þessu felast ótrúleg óheilindi, því Tyrklandsstjórn hefur ekki getað tekið af skarið í því að sporna gegn ISIS. Í gegnum Tyrkland streyma sjálfboðaliðar til að berjast með sveitum hinna íslömsku fasista.
En Tyrkland er mikilvægur bandamaður Vesturlanda, eitt af aðildarríkjum Atlantshafsbandalagið. Nató óttast að Tyrkland fari enn lengra út á braut íslamsvæðingar – eins og það hefur að nokkru leyti gert undir stjórn Erdogans. Í því samhengi skipta Kúrdar litlu máli, þeim má gleyma eftir hentugleikum og svíkja þá. Og því munu Tyrkir komast upp með að ráðast gegn þeim, á sama tíma og þeir leika báðum skjöldum gagnvart ISIS.

Kúrdískar konur tóku þátt í að berjast gegn ISIS í umsátrinu um Kobani. Robert Fisk segir að orrustan hafi verið eins konar mini-Stalíngrad.