

Framboð Jeremy Corbyn til formennsku í Verkamannaflokknum vekur athygli og skelfingu. Corbyn er til vinstri í flokknum og Tony Blair er alveg brjálaður. Corbyn stendur fyrir allt sem Blair er ekki – hann virkar meira að segja heiðarlegur.
Blair segist ekki myndu kjósa Verkamannaflokkinn ef Corbyn yrði formaður og hann hefur lýst því yfir að Corbyn og stuðningsmenn hans séu „afturhald“.
En svo má skoða stefnumál Corbyns – og komast að því að kannski ríma þau ágætlega við hugmyndir kjósenda. Þar er hann á sama báti og Bernie Sanders sem líklega verður ekki forseti Bandaríkjanna þótt gríðarleg vakning sé í kringum framboð hans.
Dagblaðið The Independent birtir grein um meinta afturhaldsstefnu Corbyns – og viti menn, kjósendur eru oft og einatt á sama máli og hann. Líka þeir sem ekki kjósa Verkamannaflokkinn.
Til dæmis er yfirgnæfandi meirihluti Breta sammála honum um að rétt sé að endurþjóðnýta járnbrautirnar eftir einkavæðingu sem einkenndist af spillingu og vanhæfni. Meirihluti kjósenda Íhaldsflokksins er líka sammála þessu.
Mikill meirihluti kjósenda vill líka hækka skatta á tekjur sem eru yfir 1 milljón punda, þeir vilja sjá alþjóðlegt bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, þeir vilja þak á húsaleigu, þeir styðja lögbundin lágmarkslaun og vilja lækka skólagjöld sem hafa farið mjög hækkandi síðustu áratugi.
Corbyn var á móti Íraksstríðinu, sem Blair efndi til, meirihluti kjósenda telur að það hafi verið mistök og, líkt og Corbyn, er meirihluti kjósenda andsnúinn því að Bretar taki þátt í sprengjuárásum á Sýrland.
Afturhald? Öfgar? Eða er það kannski Blair sem er öfgamaðurinn?
