
Gaman er að sjá menn spá kollsteypu á Íslandi sem spáðu engu slíku þegar hin stóra kollsteypa varð 2008, heldur í raun þveröfugt. Voru þó ýmis teikn á lofti á þeim tíma, fleiri en byggingakranar, og miklu skýrari en nú er.
Verðbólga á Íslandi er afar lítil, gengið hefur verið frá kjarasamningum við flestar stéttir, þeir eru það sem kallast „hóflegir“. Það er að vísu þensla í ferðamannaþjónustu, spár um hagvöxt hljóma upp á sirka 3 prósent. Og jú, það er verið að byggja dálitið af húsum og íbúðaverð hækkar. Mest er það þó nálægt miðborg Reykjavíkur.
Engar sérstakar stórframkvæmdir eru í sigtinu næstu misserin, þótt einhverjir sjái meiri stóriðju í hillingum. Höftum er aflétt með þeim hætti að fé frá erlendum kröfuhöfum fer í að greiða niður erlendar skuldir þjóðarbúsins og nú fara lífeyrissjóðir væntanlega aftur að geta fjárfest erlendis, en annars verðum við enn í talsverðum haftabúskap næstu árin. Ólíklegt er að fari í gang vaxtamunarviðskipti eins og þau sem urðu Íslandi svo dýrkeypt 2008.
Vextir eru háir og Seðlabankinn virðist albúinn að hækka þá meira. Aðgangur að lánsfé er fremur takmarkaður fyrir allan almenning. Gengi krónunnar er ekki fljótandi eins og var árin eftir 2000, viðskiptajöfnuður er hagstæður enda streymir gjaldeyrir inn í landið – Seðlabankinn passar að gengi krónunnar styrkist ekki of mikið.
Er einhver sérstök ástæða til að ætla að framundan sé kollsteypa eins og sumir segja? Varla, þótt sjálfsagt sé að vera á varðbergi.
Í því sambandi má nefna að fyrir Alþingi liggur nú stjórnarfrumvarp þar sem er kveðið á um svokallaða fjárlagareglu. Hún felur í sér að fjárlög megi ekki hækka milli ára um meira en 2,5 prósent. Aðaltilgangurinn er að halda aftur af þenslu, um þetta hefur verið rætt árum saman en ekkert orðið úr fyrr en nú. Þetta er mikið áhugamál Bjarna Benediktssonar og allir flokkar virðast vera sammála þessu, að minnsta kosti heyrir maður ekki mikla umræðu um málið.
Pétur Gunnarsson blaðamaður orðar það svo á Facebook:
Þetta frumvarp um opinber fjármál finnst mér orðið áhugaverðara en mér fannst það í síðustu viku. Það varð ekki að lögum á þingi en meðferð þess var langt komin og m.a. liggja fyrir nefndarálit og líklega samkomulag um að afgreiða það í haust. Minnihluti Samfylkingar, VG og BF gerir engar athugasemdir við þau ákvæði frumvarpsins um takmörk við fjárlagahalla sem mér sýnist að banni nánast Keynes-isma í hagstjórn á Íslandi með því að árlegur fjárlagahalli sé fortakslaust undir 2,5% af VLF.
Lög af þessu tagi útheimta stanslaust aðhald í ríkisrekstri – þarna er aðhaldsstefnan beinlínis leidd í lög. Og það er auðvitað spurning hvernig þetta virkar. Pétur nefnir Keynes – hann ætti auðvitað að vera stóraktúel þessa dagana. En það má líka nefna heilbrigðismálin, mikill meirihluti þjóðarinnar virðist vera sammála um að þar þurfi að gera stórátak á næstu árum og það mun útheimta útgjöld. Sem hagfræðingurinn sem vitnað er í fyrst í þessari grein varar við.