

Myndin hérna er úr safni kærs gamals samstarfsmanns, Tage Ammendrup. Hann vann um áratuga skeið sem upptökustjóri á sjónvarpinu og það er svo einfalt að allir elskuðu Tage. Það er dóttir hans, María, sem setti myndina á vefinn.
Hérna má sjá Skólastræti einhvern tíma fyrir 1977. Þessi hús eru afar illa farin og síðar voru þau rifin og byggt nýtt í staðinn. En þegar maður horfir á myndina sér maður sjarma í þessum gömlu húsum sem ekki er í því sem kom í staðinn. Þau eru í stílnum gamal/nýtt sem yfirleitt virkar ekki vel. Ég tala af nokkurri þekkingu, búandi hinum megin við götuna.
Húsin þarna brunnu 1977, voru skelfing illa farin – og eftir það var loks hafist handa við endurgerð Bernhöftstorfunnar. Við endann á götunni, og veit út í Bankastræti, er hús sem var í eigu KRON, sálugs Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis. Þarna var um tíma bókabúð KRON og þar fengust meðal annars erlendar bækur sem Þorvarður Magnússon pantaði og seldi af menningarlegum metnaði.

Í umræðum um myndina var þessu póstað á Facebook. þetta er sögð vera elsta ljósmynd frá Reykjavík, tekin 1845, og sýnir einmitt Berhöftstorfuna. Þarna er húsið sem ég bý í ekki risið, það var byggt 1856.
