
Aþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir beint út að samkomulag Evrópusambandsins og grísku stjórnarinnar sé ónýtt. Hann vill ekki taka þátt í þessu – má það í raun ekki samkvæmt reglum sínum. En Grikkir munu líklega samþykkja áætlunina, bara til að fá smá frið, smá andrými. Ástandið í landinu versnar með hverjum degi síðan bankar lokuðu og Evrópski seðlabankinn klippti á aðgengi Grikkja að reiðufé.
Þetta hafa verið sorglegir dagar fyrir Evrópu og erfiðir fyrir þá sem eru í meginatriðum hliðhollir ESB – maður verður að vona að stjórnendur sem koma síðar muni ná að semja sig að annarri og skynsamari niðurstöðu. Einn misskilingurinn sem er uppi er sá að ekki megi gagnrýna ESB – maður upplifir það að sumir evrópusinnar eru svo heitir að þeir þora varla að heyra styggðaryrði um sambandið. Og andstæðingar ESB ganga á lagið og finnst þetta afar skemmtilegt, það er ekki hægt að kalla það Þórðargleði – þetta gagnrýnisleysi í garð ESB er náttúrlega bara asnalegt.
ESB er bandalag ríkja sem spannar heila heimsálfu, hefur 28 aðildarríki og meira en 500 milljón íbúa. Ríkin innan ESB eru mjög misjöfn og ólík – og slíkt skapar spennu. Þessa dagana má helst gagnrýna ESB fyrir tvennt, og það birtist í samningunum við Grikki – fjármálaöflin hafa alltof mikil völd. Það er hins vegar alheimsvandamál – nákvæmlega sama er uppi á teningnum í Bandaríkjunum. Við höfum séð smá uppreisnir gegn þessu, í Icesave á Íslandi, í framboði Bernie Sanders í Bandaríkjunum, í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Grikklandi, en það er ekki nándar nærri nóg. Grikkir treysta sér til dæmis varla til að standa einir eftir í víglínunni gegn alþjóðakapítalinu.
Hitt umhugsunarefnið er staða Þjóðverja. Einn megintilgangur ESB þegar það var stofnað var að ná Þjóðverjum aftur inn í Evrópu eftir allan hrylling stríðsins sem þeir hófu. Þetta felur líka í sér að Þýskalandi þarf að halda aðeins niðri – Þýskaland er langsterkasta ríkið í Evrópu, en ef Evrópusambandið á að halda þarf það að sýna varfærni. Þetta vantaði í samningunum við Grikki, Þjóðverjar með Wolfgang Scäuble í fararbroddi voru allt í einu farnir að hegða sér eins og fautar – og það vekur upp slæmar tilfinningar. Evrópusambandið má ekki breytast í einhvers konar bakgarð Þýskalands. Því miður hafa Þjóðverjar nokkra hríð haldið uppi stefnu sem er beinlínis skaðleg fyrir Evrópu og felst í því að sýna linnulaust aðhald á tíma þegar þarf að örva hagkerfi álfunnar.
En Evrópusambandið er jafnmikilvægt og áður. Evrópu hefur tekist að byggja upp kerfi sem hefur tryggt frið í álfunni í 70 ár. Það er óþekkt í fyrri tíma sögu Evrópu. Engin teikn eru á lofti um að þetta breytist. Þeim fjölgar í veröldinni málunum sem ekki er hægt að takast á við nema á grundvelli alþjóðasamstarfs. Sameinuð Evrópa getur beitt sér í umhverfismálum, staðið jafnfætis Kína og Bandaríkjunum (jafnvel haldið aftur af Bandaríkjunum eins og í Íran), og – vonandi, ef mönnum ber gæfa til – reynt að hafa hemil á yfirgangi og græðgi fjármálaafla og stórfyrirtækja. Það er hið stóra mál lýðræðissinna um þessar mundir. Sundruð Evrópa yrði eins og snakk fyrir stórveldin og stórkapítalið.
Það er hins vegar ekki svo að Evrópusambandið sé gallalaust, það megi ekki gagnrýna eða gera á því gagngerar endurbætur. Fyrr má nú vera. Undirgefni margra evrópusinna í Grikklandsmálinu er mjög sérkennileg, ekki síst þeirra sem eiga að teljast til vinstri. Þeir hjóta að átta sig nú þegar sjálfur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að björgunaráætlunin sé rugl.
Hvað Ísland varðar þá erum við ekkert á leiðinni inn í Evrópusambandið. Það þýðir ekkert að tala um það. Stærsti stjórnmálaflokkurinn, Píratar, hefur reyndar á stefnuskrá að greidd skuli atkvæði um áframhald viðræðna við ESB. Þangað er fylgi meðal annars komið frá evrópuflokkunum Bjartri framtíð og Samfylkingu. En við skulum samt ekki gleyma því að við erum meira en hálfir meðlimir að ESB í gengnum EES og Schengen, tökum stanslaust við tilskipunum frá Brussel um alla mögulega hluti og höfum undirgengist fjórfrelsið svokallað – þó með höftum á fjármagnsflutninga hin síðari ár. Það er Íslendingum eins og öðrum Evrópubúum í hag að ESB vegni vel.