
Það er heldur spaugilegt að sjá listann yfir helstu frambjóðendur Repúblikana fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Maður skyldi samt vara sig á því að hlæja, flokkurinn vann náttúrlega sigur í síðustu þingkosningunum.
Efstur á listanum er Donald Trump, hann hefur mest fylgið. Trump hatast við Mexíkóa, telur þá vera uppsprettu ótal vandamála og vill reisa múr milli Mexíkó og Bandaríkjanna – og tekur sérstaklega fram að Mexíkóar sjálfir eigi að borga fyrir múrinn.
Í öðru sæti er Jeb Bush. Hann vill reyndar helst láta kalla sig bara Jeb, því annar rifjast það upp fyrir kjósendum að hann er bróðir versta forseta í seinni tíma sögu Bandaríkjanna.
Í þriðja sæti er Rand Paul. Hann er svo mikill frjálshyggjumaður að hann líkir skattlagningu við þrælahald. Þetta er í fjölskyldunni hjá honum, því hann er nefndur eftir Ayn Rand. Það er svona svipað og ef vinstrimenn færu að nefna börnin sín Marx eða Engels. Það var reyndar ekki óþekkt á sínum tíma.
Í fjórða sæti er Scott Walker, ríkisstjóri í Wisconsin. Hann er mikill baráttumaður gegn lágmarkslaunum og réttindum verkafólks – og reyndar gegn fóstureyðingum líka.
Í fimmta sæti er svo Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður, einn af forvígismönnum Teboðshreyfingarinnar. Hann er harður á því að loftslagsbreytingar hafi ekkert með athafnasemi manna að gera, hann er á móti hjónaböndum samkynhneigðra, hann vill lækka skatta, sérstaklega skatta á fjármagnstekjur.
Allir þessir menn virka eins og pólitísk smámenni. Einu sinni voru til repúblikanar sem virkuðu nokkuð heilir, voru jafnvel statesmen. Meira að segja Richard Nixon átti það til. En það virðist vera liðin tíð.