„Afbragðs leiðari eftir Þorbjörn um þá smán sem kostnaðarþátttaka sjúklinga er hér á landi – og er verk allra gömlu stjórnmálaflokkanna muni ég rétt – og snilldarteikning eftir Halldór að vanda,“ segir rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson á Facebook-síðu sinni. Þar skautar hann yfir innihald Fréttablaðsins. Hrósar Guðmundur Andri Þorbirni Þórðarsyni en segir umfjöllun um ljótustu kjóla á Óskarsverðlaunahátíðinni vera skammarlega.
„Kostnaðarþátttaka sjúklinga hefur verið smánarblettur á íslenska heilbrigðiskerfinu lengi,“ segir Þorbjörn í grein sinni Smán kerfisins og bætir við: Það eru margar leiðir til að hjúkra fólki til heilsu og það skiptir máli hvaða leið er valin og tryggja verði sjúklingum þolanlegt líf í meðferð.
Að sjúklingar geti gengið að lífi með reisn sem vísu meðan á meðferð stendur og eftir atvikum fram að dauðastund. Þetta fólk á rétt á því að búa við lífsgæði og áhyggjuleysi á síðustu skrefunum í jarðlegri tilvist eða á meðan það hefur ekki náð fullum bata. Ef ríkisvaldið getur ekki tryggt þessi réttindi er Ísland ekki velferðarsamfélag.
Guðmundur Andri er fastur penni hjá Fréttablaðinu og hrífst hann af þessari grein Þorbjörns og hrósar um leið skoðanagreinum sem hann kveðst í flestum tilvikum ósammála. Þá beinir Guðmundur Andri þeim tilmælum til Fréttablaðsins að stórauka umfjöllun um menningarviðburði og skrifa meira um bækur.
„já og til dæmis skrifa um ljóðabókina mína frá því fyrir jól! Það væri líka gaman að sjá í blaðinu minningargreinar. Það er falleg íslensk hefð – kannski okkar merkasta bókmenntagrein – sem Mogginn situr enn að einn, fyrir utan stóra fjölmiðilinn, sem er þessi hér,“ segir Guðmundur Andri. Um umfjöllun um ljótustu kjólana á Óskarsverðlaunaafhendingunni hefur rithöfundurinn þetta að segja: „Ömurlegt efni.“
Er svona kjólalast og grjótkast á konur ekki úrelt? Hvers konar fólk situr og reynir að hugsa upp andstyggilegar athugasemdir um konur sem hafa puntað sig?
Sjá umfjöllun Bleikt um klæðnað stjarnanna á Óskarsverðlaunahátíðinni