

Baltasar fæddist í Barcelona þann 9. janúar árið 1938 og stundaði hann nám við Listaháskólann í borginni þar sem hann útskrifaðist árið 1961.
Í umfjöllun RÚV kemur fram að Baltasar hafi farið í heimsreisu þetta sama ár með viðkomu á Íslandi og bjó hann hér samfleytt frá 1963.
Baltasar var afkastamikill listamaður og kenndi einnig við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hann var þekktur fyrir stór og mikil verk og er eitt hans þekktasta verk veggskreyting í Flateyjarkirkju og freska í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði.
Eftirlifandi eiginkona Baltasars er Kristjana Guðnadóttir Samper. Þau eignuðust þrjú börn, þar á meðal Baltasar Kormák leikstjóra og kvikmyndagerðarmann.