

Kjartan Már Kjartansson er gestur Einars Bárðarsonar í nýjasta þætti hlaðvarpsins Einmitt.
Í ítarlegu og opinskáu samtali fer Kjartan yfir tólf ára feril sinn sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar, erfiða endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins, gríðarlega íbúafjölgun, áföll síðustu ára – og persónulega baráttu við veikindi og andlegar áskoranir. Kjartan tók við starfi bæjarstjóra eftir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2014 þegar Reykjanesbær var í miklum fjárhagsvanda. Hann segir ferlið við að snúa rekstrinum við hafa verið langt, erfitt og krafist mikillar samstöðu í bæjarstjórn. „Endurskipulagningin tók mikinn tíma og mikla vinnu. Það þurfti að vera algjör samstaða í sveitarstjórninni, annars hefði þetta aldrei gengið,“ segir Kjartan.
Í samtalinu lýsir Kjartan því hvernig ríkið reyndist óvænt erfiðasti viðsemjandinn í endurskipulagningu skulda Reykjanesbæjar, einkum í kjölfar uppgjörs fallinna banka. „Það sem kom okkur mest á óvart var að erfiðasti samningaaðilinn var ríkið í rauninni,“ segir hann og útskýrir að skuldir sveitarfélagsins hafi endað í eigu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. „Þau tóku við þessum kröfum á niðursettu verði, fengu þær á afslætti. En settu kröfurnar inn í lífeyrissjóðinn sem framlag. Þannig að við skulduðum lífeyrissjóðnum – og hann vildi fá hverja einustu krónu, og rúmlega það,“ segir Kjartan. Hann bætir við að á meðan sveitarfélagið hafi verið „að róa lífróður“ hafi ríkið staðið fast á sínu.
Á sama tíma og fjárhagsleg endurskipulagning stóð yfir hefur Reykjanesbær vaxið hratt. Íbúum hefur fjölgað um rúmlega 60–64 prósent á hans tíma í embætti. „Við erum búin að byggja einn grunnskóla, eitt stórt íþróttahús og þrjá leikskóla – og við erum enn að,“ segir Kjartan og bendir á að slík fjölgun hafi fært með sér „mjög, mjög miklar áskoranir“. Ofan á það hafi komið ytri áföll. „Og tala nú ekki um Covid. Svo koma þessar hörmungar í Grindavík. Þetta er búið að vera rosalega viðburðaríkur tími,“ segir hann. Þrátt fyrir það segist hann sannfærður um að Suðurnesjamenn standi sterkari eftir. „Ég segi þetta frá hjartanu – Suðurnesjamenn allir koma sterkari út úr þessum tíma. Það sem brýtur mann ekki, það styrkir mann. Ég held að það sé ekkert sem getur beygt okkur fyrst við stóðum í lappirnar í gegnum þetta allt saman.“
Í þættinum opnar Kjartan sig einnig um veikindi sín og andlegar áskoranir. Hann greinir frá því að hann hafi verið í lyfjameðferð síðustu mánuði og snúið aftur til starfa 1. september síðastliðinn. „Þetta er í töfluformi, ekki chemóþerapía – við eigum hana inni, eins og læknirinn sagði. Vonandi kemur ekki til þess,“ segir hann. Kjartan talar af hreinskilni um að hafa glímt við andlegar áskoranir samhliða veikindunum. „Ég hef alveg farið langt niður og séð bara svart. Þetta gerist enn, þó að lengra sé á milli. En þetta kemur fyrir.“ Hann segir mikilvægt, sérstaklega fyrir karla, að tala opinskátt um slíka reynslu – og það hafi haft óvænt áhrif.
„Af því að ég hef verið opinn með þetta hafa fullt af köllum komið til mín. Menn sem fjölskyldan veit ekki einu sinni að eru veikir. Þeir koma svona næstum fyrir hornið og segja: ‚Geturðu aðeins talað við mig?’“ Kjartan segir að það sé nauðsynlegt að rjúfa þögnina. „Við karlmenn erum ekkert sérstaklega góðir í að tala um hlutina. En það hjálpar. Ég hef verið ófeiminn við að hitta aðra karla sem eru með svipað mein og ég – og það hefur verið mjög gott.“ „Það eina sem maður stjórnar eru viðbrögðin.“
Hann lýsir því hvernig stuðningsnet fjölskyldu, vina og samstarfsfólks hafi skipt sköpum. Kona hans, Jóna, hafi sjálf reynslu af veikindum og staðið þétt við hans hlið. „Þetta er bara hluti af því að vera manneskja. Það gerist eitthvað. Það eina sem maður getur stjórnað eru viðbrögðin við því,“ segir Kjartan.
„Það er áreiti, svo er lítið bil þar á milli þar sem maður velur viðbrögðin. Sumir verða reiðir og sárir. Aðrir ná að nýta þetta bil. Ég er að æfa mig í því – gengur misvel.“
Kjartan segist staðráðinn í að ljúka núverandi kjörtímabili, sem rennur út í maí á næsta ári, en hyggist ekki sækjast eftir áframhaldandi ráðningu sem bæjarstjóri standi það til boða. „Þetta eru 12 ár. Þetta er bara orðið gott,“ segir hann „Tíminn hefur verið skemmtilegur, krefjandi og gengið vel. Við erum á miklu, miklu betri stað í dag rekstrarlega.“
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér:
![]()