

Simmi var þar í fjarveru Heimis Karlssonar og ræddi hann málið við Lilju Katrínu Gunnarsdóttur og Ómar Úlf Eyþórsson, en sá síðarnefndi fór einnig í áfengismeðferð á sínum tíma. Tók Ómar það fram að sú ákvörðun að fara í meðferð hafi verið eitt mesta heillaskref sem hann hefur tekið í lífinu.
Það er skemmst frá því að segja að Simmi hefur sjaldan verið betri að eigin sögn, en hann talaði opinskátt um það í nóvember að ákvörðunin væri löngu tímabær, enda hafi hann notað áfengi sem flóttaleið en ekki sem gleðigjafa.
„Hvað er að vera feiminn yfir? Þetta var bara vandamál sem þurfti bara að tækla og þá gerir maður það bara. Það er ekkert til að vera feiminn yfir,” sagði Simmi sem var í meðferð í 24 daga, fyrst á Vogi og svo í eftirmeðferð á Vík.
„Þetta er bara frábær formúla og hún hefur virkað fínt. Menn þurfa mismunandi mikla afeitrun,“ sagði Simmi en hann hafði til dæmis ekki smakkað áfengi í 20 daga áður en hann fór á Vog. Hann hafi því ekki verið í hinu eiginlega afeitrunarferli – og þó – en hann ákvað samtímis að hætta notkun nikótíns.
„Það var kannski afeitrunin mín, að taka út nikótínskjálftann,“ sagði Simmi sem byrjaði að nota munntóbak sem unglingur í Svíþjóð.
Simmi tók líka fram að þessir 24 dagar hafi í raun verið mikil hvíld. „24 dagar frá vinnu er eitthvað sem ég hef aldrei upplifað. Maður er bara tekinn úr sambandi í 24 daga og það eitt og sér er bara hrikalega endurnærandi og hollt,“ sagði Simmi sem sagðist mæla með þessu fyrir alla sem mögulega telja sig þurfa á að halda.