fbpx
Fimmtudagur 18.desember 2025
Fréttir

Fær ekki að stunda nám á Íslandi – Trúðu ekki að hún hefði verið að lána bróður sínum pening

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 11. desember 2025 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Konu frá Nígeríu hefur verið synjað um dvalarleyfi á Íslandi sem námsmaður. Kærunefnd útlendingamála hefur staðfest synjun Útlendingastofnunar, þessa efnis. Var meginástæðan háar millifærslur út af og inn á bankareikning konunnar en þær skýringar hennar að hún hefði verið að lána bróður sínum peninga voru ekki teknar trúanlegar.

Útlendingastofnun synjaði umsókn konunnar í september á þeim grundvelli að hún hefði ekki sýnt fram á trygga framfærslu en stofnunin miðar við að lágmarksupphæð til framfærslu á mánuði sé 247.562 krónur, sem er grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar. Þegar konan fór fram á rökstuðning vísaði stofnunin til þriggja bankayfirlita sem hún hafði lagt fram til að sanna að hún hefði yfir að ráða nægu fé til framfærslu. Benti stofnunin konunni á að yfirlitin tilgreindu inn- og útborganir nokkuð stórra fjárhæða. Ekki lægi fyrir hver uppruni fjárins væri en fram kæmi að hún hefði millifært fjármunina út af reikningi sínum sama dag og hún sótti um dvalarleyfi, og þá hafi fjármunir komið aftur inn á reikning hennar tveimur dögum eftir að Útlendingastofnun óskaði eftir frekari framfærslugögnum.

Sagði stofnunin innistæðuna á reikningnum ekki nógu traustvekjandi til að teljast duga til  framfærslu. Innborganir sem væru teknar út jafnharðan og lagðar inn í kjölfar beiðna um viðbótargögn sýndu ekki einar og sér með trúverðugum hætti fram á trygga framfærslu. Þá hefði konan ekki lagt fram önnur gögn sem sýndu fram á fullnægjandi framfærslu.

Lán

Konan kærði synjunina til kærunefndar útlendingamála og fullyrti í sinni kæru að hún hefði lagt fram gögn sem sýndu fram á að hún hefði yfir nægum fjármunum að ráða til að framfleyta sér á Íslandi. Þær hreyfingar á bankareikningi hennar sem Útlendingastofnun hefði gert athugasemdir við væru tilkomnar vegna þess að hún hefði óvænt þurft að lána bróður sínum peninga.

Vildi konan meina að það kæmi ekki fram í lögum að innistæða yrði að vera óhreyfð á meðan umsókn um dvalarleyfi vegna náms væri til meðferðar og heldur ekki að hreyfingar á reikningi væru nægur grundvöllur til að telja framfærslu ekki vera trygga.

Gerði konan ýmsar athugfasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar. Hún hafi til að mynda ekki fengið andmælarétt. Þá taki kröfur Útlendingastofnunar ekki nægt mið af aðstæðum í heimaríki hennar þar sem reiðufé sé algengasti greiðslumátinn og bankareikningur hennar því lítið notaður. Með þessu hafi stofnunin ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni.

Sagði einnig í kærunni að synjun á umsókn um dvalarleyfi vegna náms sem konan hefði þegar fengið inngöngu í og greitt skólagjöld fyrir væri íþyngjandi ákvörðun. Þar að auki hafi hún haft réttmætar væntingar fyrir útgáfu dvalarleyfis enda hlotið inngöngu í nám og lagt fram öll nauðsynleg fylgigögn.

Trúa ekki

Kærunefnd útlendingamála segir í sinni niðurstöðu að gögn málsins beri með sér að konan hafi haft nægt fé á innistæðureikningi sínum daginn sem umsókn hennar um dvalarleyfi var lögð fram en sama dag, 30. maí 2025, hafi hún millifært 40 milljón nígerískar nærur (um 3,2 milljónir íslenskra króna) af bankareikningi sínum og eftir hafi staðið 26.269 nærur (um 2.100 íslenskar krónur).

Þann 28. júlí 2025 hafi Útlendingastofnun óskað eftir frekari gögnum, þar með talið um trygga framfærslu. Þegar henni hafi borist bréf stofnunarinnar hafi hún ekki haft nægt fé á bankareikningi sínum. Tveimur dögum síðar hafi 40 milljónir næra verið millifærðar á reikning konunnar. Samkvæmt skýringum konunnar hafi hún lánað bróður sínum fjármuni og hann greitt henni til baka þegar henni varð ljóst að hún þyrfti að reiða fram sönnun á framfærslu.

Stofnunin segir konuna ekki hafa haft stöðugt aðgengi og sannanleg yfirráð yfir þeim fjármunum sem hún byggi framfærslu sína á. Hún hafi eingöngu haft nægt fé til umráða þegar umsókn var lögð fram og að nýju þegar óskað var eftir nánari upplýsingum af íslenskum stjórnvöldum. Umræddar millifærslur nemi um 3,2 milljónum íslenskra króna. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hafi kynnt sér um aðstæður í Nígeríu jafngildi ársmeðallaun í landinu um 160.000 krónum. Millifærslurnar, sem konan hafi lýst sem láni til bróður síns, nemi því um tuttuguföldum ársmeðallaunum í Nígeríu.

Þá sé  umrædd upphæð margföld á við meðalinnistæðu á framlögðum reikningi konunnar sem dragi úr trúverðugleika frásagnar hennar að um tilfallandi lán hafi verið að ræða. Framlögð bankayfirlit séu ekki til þess fallin að sýna fram á að konan muni hafa aðgang að tryggri og öruggri framfærslu, samkvæmt lögum um útlendinga, á því tímabili sem dvalarleyfisumsóknin taki til.

Nefndin telur því með vísan til alls þessa að konan hafi ekki yfir nægum fjármunum til framfærslu á Íslandi að ráða og synjun á umsókn hennar um dvalarleyfi sem námsmaður var því  staðfest.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Mannslát á Kársnesi: Gæsluvarðhald framlengt til 13. janúar

Mannslát á Kársnesi: Gæsluvarðhald framlengt til 13. janúar
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Björn Leví lætur gamlan kollega heyra það – „Það væri fínt að losna við hann úr þinginu”

Björn Leví lætur gamlan kollega heyra það – „Það væri fínt að losna við hann úr þinginu”
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Hjón réðust til atlögu við annan af hryðjuverkamönnum á Bondi-strönd en lifðu það ekki af – Hyllt sem hetjur

Hjón réðust til atlögu við annan af hryðjuverkamönnum á Bondi-strönd en lifðu það ekki af – Hyllt sem hetjur
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Halldór Blöndal er látinn

Halldór Blöndal er látinn
Fréttir
Í gær

Manuela Ósk svarar Helenu – „Í flestum tilfellum farið með hreinar rangfærslur“

Manuela Ósk svarar Helenu – „Í flestum tilfellum farið með hreinar rangfærslur“
Fréttir
Í gær

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu
Fréttir
Í gær

Safnað fyrir Gunnar Inga sem á langt bataferli framundan – „Fyrir algjört kraftaverk var lífi hans bjargað“

Safnað fyrir Gunnar Inga sem á langt bataferli framundan – „Fyrir algjört kraftaverk var lífi hans bjargað“
Fréttir
Í gær

Verðkönnun á jólakjöti – Sjáðu hvar það er ódýrast og hvar það er dýrast

Verðkönnun á jólakjöti – Sjáðu hvar það er ódýrast og hvar það er dýrast