

„Frændi minn Ari Eldjárn var nýbyrjaður í uppistandi og þá var þessi nýja bylgja að fæðast af uppistandi eins og við þekkjum það í dag. Fyrr um vikuna hafði ég sagt við sjálfan mig: „Uppistand ég held ég láti það vera, það er listform sem ég get ekki ímyndað mér að ég geri gert, það er svo skeirí.“ Svo kom Ari til mín og sagði: „Heyrðu myndir þú ekki vilja gera uppistand?“ Og ég bara okei! Þannig að ég hafði viku til að semja eitthvað uppistand og ég gerði það og það bara virkaði og ég var mjög heppinn, mjög góður salur. Þannig að ég hélt bara áfram og það var eitt af mínum nýju giggum,“
segir Þórarinn Hugleikur Dagsson, sem best er þekktur sem Hugleikur, listamaður í viðtali í Fullorðins. Hugleikur er þekktur fyrir teikningar sínar af spýtukörlum. Hann segist hafa verið nörd þegar hann var yngri og fór í Listaháskólann og starfar í dag sem listamaður.
Hugleikur hætti nýlega í uppistandi eftir að hafa sinnt því síðan árið 2008.
„Ég ákvað að taka mér frí árið 2025 og gera ekkert uppistand þá. Eins gaman og það er, það er ógeðslega gaman að fara upp á svið og flytja brandara, það er besta tilfinning í heimi. En mér finnst líka ógeðslega gaman að vera heima eftir klukkan átta á kvöldin. Það var of oft sem ég var heima og ég var bara æj nei ég þarf að fara niður í Þjóðleikhúskjallara. Það er rosalega gaman að standa á sviðinu, en að fara út og bíða eftir því að komast á svið, það er ógeðslega leiðinlegt. En á næsta ári hugsanlega fer ég aftur upp á svið. Þetta er náttúrlega ávanabindandi, það er svo mikil viðurkenning sem maður fær fyrir þetta.“
Aðspurður um hvort hann hafi lent í að fólki hlægi ekki hlær Hugleikur og segir það hafa komið fyrir.
„Sem blessunarlega mjög sjaldan. Maður er ekki alvöru grínist nema, maður þarf að bomba oft til að vera alvöru grínisti held ég. Maður hefur alveg lent í slæmum sal, en reglan er sú að þú mátt aldrei kenna salnum um. Þetta er versta tilfinning í heimi.
Það er svo mikilvægt að það komi fyrir og það kemur fyrir flesta, og kemur fyrir flesta fyrst. Það er náttúrlega rosa næs að ég sló í gegn fyrsta skipti sem ég gerði uppistand og næstu skipti en það er eiginlega eðlilegast að það misheppnist í fyrsta skipti. Þetta þarf að vera erfið fæðing og þú þarft að fatta það eins snemma í ferlinu og þú getur að þetta geti gerst. Mikilvægasta við það að misheppnast á sviði er að komast að því að það er ekki heimsendir, þó manni líði að það sé heimsendir á meðan það er að gerast. Að vera byrjaður á brandara og þeir eru ekki búnir að hlæja að síðustu þremur bröndurum og maður veit að þeir eru ekki að fara að hlæja að þessum, en þú þarft að klára hann, það er ömurlegt.“