

Pistlar Ragnhildur Þórðardóttir sálfræðings, betur þekkt sem Ragga nagli, sem skrifaðir eru á mannamáli njóta mikilla vinsælda á Facebook-síðu hennar. Í þeim nýjasta fjallar Ragga um prótín sem er mikilvægt orkuefni fyrir líkamann og heilsusamlegt mataræði.
Ragga segir marga eiga erfitt með að ná inn prótínmagninu yfir daginn og gefur nokkrar einfaldar og auðveldar leiðir til að ná meira prótíni í mataræðið án mikillar fyrirhafnar. Auk fróðleiks um hvað prótín er og af hverju það er svona mikilvægt.
„Prótein er ekki bara fyrir vöðvasjúkt fólk eins og Naglann.
Prótein er gríðarlega mikilvægt orkuefni fyrir almenna heilsu skrokksins og farsælt hjónaband við heilsusamlegt mataræði.
Amínósýrur í prótíni hjálpa til við:
Viðgerð á vöðvum
Prótínmyndun í vöðvum
Uppbyggingu vöðva
Halda fitusöfnun í lágmarki
Aukið mettunarstig
Betri hugræn geta.
Heilbrigður hormónabúskapur
Hærri mettunartilfinning
Prótein er eitt mest mettandi orkuefnið svo við erum södd og sátt mun lengur eftir prótínríka máltíð. Langvarandi sedda kemur oft í veg fyrir pervertískar langanir í skyndiorku úr sellófanpökkuðum mat eftir tíufréttir.
Brennsluáhrif próteina er líka frekar hátt, sem þýðir að það krefst meiri orku að brjóta niður og ferla en kolvetni. Grunnbrennslan eykst þannig við að dúndra inn próteingjafa í máltíð.“
Ragga gefur upp viðmið fyrir þá sem æfa reglulega:
„Gott daglegt viðmið fyrir einhvern sem æfir 3-4x í viku bæði styrk og þol er 1.6-2g prótín per kíló af líkamsþyngd til að byggja og viðhalda kjöti á grind.
Sem þýðir að 80 kg manneskja sem rífur í járn þrjá til fjóra daga í viku og til viðbótar blæs vel úr nös í þolæfingum þyrfti á bilinu 130-160g af prótíni daglega.
Dreift yfir fjórar til fimm máltíðir á dag þýðir sirka 30-35 grömm í hverjum snæðing.
Stundum getur of lítið prótín yfir daginn verið ástæðan fyrir að markmiðum sé ekki náð því skrokkurinn hefur ekki byggingarefnið til að búa til nýjan vöðvavef.
Eða að hungrið ætlar þig lifandi að éta því máltíðirnar eru ekki nægilega mettandi.
Og eftir því sem við eldumst því meira prótín þurfum við, bæði kvinnur og kallar, því við nýtum það ekki eins vel eftir því sem elli kerling lætur á sér kræla.
En mörg ströggla við að ná inn prótínmagninu yfir daginn.
Hér eru nokkrar einfaldar og auðveldar leiðir til að dúndra inn meira prótíni í mataræðið án þess að þurfa að kljúfa atóm í skipulagningu og undirbúningi.“





