
Deilur hafa staðið yfir milli nágranna í Laugardalshverfi í Reykjavík síðustu tvö árin vegna framkvæmda annars þeirra. Hafði hinn nágranninn kært framkvæmdirnar og haft betur fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Málið hefur nokkrum sinnum komið til kasta nefndarinnar en í nýjasta úrskurðinum felldi nefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum en ekki hafði verið sótt um slíkt leyfi fyrr en að þeim loknum. Engin grenndarkynning hafði farið fram en í kjölfar úrskurðarins var borgin í raun knúin til að láta slíka kynningu fara fram en hinn ósátti nágranni hefur nú lagt fram nýja kæru þar sem enn hafa ekki borist svör við athugasemd hans við kynninguna.
DV greindi frá niðurstöðu vegna síðustu kæru í málinu í febrúar síðastliðnum. Málið snýst í stuttu máli um deilur vegna byggingu pergólu og uppsetningu á heitum potti á verönd. Kærði hinn ósátti nágranni einnig að leyfi hefði verið veitt fyrir byggingu steypts stoðveggs á lóðamörkum lóðar nágrannans og lóðar sem er fyrir aftan hús þeirra beggja. Segir ósátti nágranninn meðal annars að vegna framkvæmdanna hafi vatn lekið niður á hans lóð.
Byggingarfulltrúi borgarinnar veitti leyfi fyrir framkvæmdunum eftir að þær voru yfirstaðnar, en nefndin komst að þeirri niðurstöðu að þær væru leyfisskyldar. Nefndin felldi hins vegar ákvörðun um byggingarleyfi úr gildi einkum á þeim grundvelli að engin grenndarkynning hefði farið fram.
Langvarandi nágrannaerjur í Laugardal – Hafði sigur vegna leka af völdum framkvæmda nágrannans
Úrskurðurinn féll í febrúar og grenndarkynning var síðan birt í Skipulagsgátt í júlí síðastliðnum en eina athugasemdin sem barst var frá kærandanum, hinum ósátta nágranna, og er hún ítarleg. Þar er þess krafist að umsókn um byggingarleyfi verði hafnað og að nágranna hans verði gert að fjarlægja allt saman, stoðvegginn, heita pottinn og pergóluna.
Er í athugasemdinni meðal annars vísað til vatnsleka, slysahættu, ónæðis, þess að nágranninn hafi veitt rangar upplýsingar um framkvæmdirnar og skerts útsýnis.
Athugasemdin er dagsett í ágúst síðastliðnum en málið er enn skráð í vinnslu í Skipulagsgátt en engin svör hafa borist við athugasemdinni frá Reykjavíkurborg og nú hefur hinn ósátti nágranni gefist upp á að bíða og lagt fram nýja kæru, vegna seinagangsins, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Kæran var lögð fram fyrir viku en hún er birt með fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar sem fram fór fyrr í dag.
Segir í kærunni að ítrekað hafi verið óskað eftir svörum en engin borist nema að málið sé í skoðun. Segir kærandinn að borginn hafi ekki farið af stað með grenndarkynninguna eftir úrskurðinn í febrúar fyrr en hann leitaði til umboðsmanns Alþingis:
„Núna er það sama upp á teningnum að ekkert er að gerast í málinu.“
Kærandinn segist fyrst hafa komið athugasemdum á framfæri við byggingarfulltrúa í júlí 2023. Engin haldbær niðurstaða sé enn komin í málið og hafi fallið sex úrskurðir hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sá tími og orka sem fari í að reyna að fá skipulagsyfirvöld í Reykjavík til að framkvæma lögbundna starfsskyldu sína sé mjög íþyngjandi. Telur kærandinn að svo geti verið að borgin hafi í málinu brotið ákvæði stjórnsýslulaga um málshraða.
Engar skýringar hafi fengist frá Reykjavíkurborg á þessum töfum en hún hafi haft meira en tvö ár til þess að bregðast við framkvæmdunum og öllum þeim athugasemdum sem gerðar hafi verið frá upphafi málsins 2023. Athugasemdir við grenndarkynninguna eigi því ekki að koma skipulagsyfirvöldum neitt á óvart og því sé þessi töf enn óskiljanlegri og til mikils ama og óþæginda.