

Lengi má manninn reyna, sérstaklega ef þú ert meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar. Nýlega var Andrés Mountbatten-Windsor, bróðir Karls Bretakonungs, sviptur titlum vegna tengsla sinna við níðinginn Jeffrey Epstein. Harry Bretaprins flúði land fyrir nokkrum árum með fjölskyldu sinni og minnir reglulega á það með viðtölum eða bókaskrifum. Enginn er kominn yfir það að Díana prinsessa lést í bílslysi árið 1997, konungurinn er heilsuveill með krabbamein, verðandi drottning Katrín prinsessa er að jafna sig eftir krabbamein og Vilhjálmur krónprins er víst farinn að girnast hásætið.
Því fannst víst engum í höllinni fyndið þegar dóttir Andrésar, Beatrice prinsessa, ákvað óvænt að boða til teboðs í Sádí-Arabíu í október. Teboðið hafði á sér formlegt yfirbragð en var þó ekki á vegum konungshallarinnar, en þar urðu menn slegnir þegar myndir fóru að birtast í fjölmiðlum.
Heimildarmaður segir nú í samtali við Express að konungsfjölskyldunni hafi þótt þetta vægast sagt ósmekklegt af prinsessunni. Nú verði haldið fastar á málum í höllinni og ætli Beatrice að koma fram undir konunglegum titlum sínum þarf hún að afla fyrirfram samþykkis, þetta er gert til að koma í veg fyrir frekari hneyksli í tengslum við Andrés og hans væng af fjölskyldunni. Almennt er Beatrice vel liðin innan hallarinnar og þykir mönnum þar synd og skömm ef svipta þurfi hana titlum eins og föður hennar.