fbpx
Miðvikudagur 26.nóvember 2025
Fréttir

Rússar beita vafasömum aðferðum til að lokka útlendinga í herinn

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 26. nóvember 2025 07:00

Stríðsfangar í Úkraínu. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um 200 erlendir stríðsfangar eru nú í haldi yfirvalda í Úkraínu, en umræddir einstaklingar eru sagðir hafa barist fyrir Rússa í Úkraínu eftir að hafa verið blekktir eða þvingaðir til þátttöku í stríðinu. CNN fjallar ítarlega um þetta á vef sínum.

Í umfjöllun CNN kemur fram að fangarnir komi frá 37 löndum, allt frá ríkjum í Afríku til Suður-Asíu og Mið-Asíu. Eru sögur þeirra sagðar draga upp mynd af kerfisbundinni blekkingu, fjárhagslegum loforðum og jafnvel hótunum sem úkraínsk yfirvöld segja að Rússar beiti til að manna heri sína.

Frá 128 löndum

Hershöfðinginn Dmitry Usov stýrir samhæfingarstöð Úkraínu um meðferð erlendra stríðsfanga. Hann segir við CNN að úkraínsk yfirvöld hafi borið kennsl á meira en 18 þúsund ríkisborgara frá 128 löndum og svæðum sem hafa barist fyrir Rússa í stríðinu.

Þessi tala inniheldur ekki fjölda hermanna frá Norður-Kóreu sem voru sendir í stríðið samkvæmt samkomulagi yfirvalda í Rússlandi og Norður-Kóreu.

CNN segir að stöðug aukning í fjölda erlendra ríkisborgara í rússneska hernum hafi vakið alþjóðleg viðbrögð. Þannig hafi yfirvöld í Kenía, Suður-Afríku og Indlandi viðrað áhyggjur sínar og krafist þess að Rússar hætti að senda ríkisborgara þeirra á vígvöllinn. Yfirvöld í Indlandi segja að 44 indverskir ríkisborgarar berjist fyrir Rússa og að unnið sé að því að koma þeim heim.

Áberandi fjölgun á þessu ári

Úkraínsk yfirvöld segja að fjöldi erlendra ríkisborgara hafi vaxið ár frá ári frá árinu 2022, en fjölgunin á þessu ári sé mest áberandi. Á fyrstu níu mánuðum ársins tóku úkraínskir hermenn tvöfalt fleiri erlenda fanga en allt árið á undan; árið 2024 voru þeir fimmfalt fleiri en árið 2023. Þykir þetta vera til marks um erfiðleika Rússa við að manna herlið sitt.

CNN hefur sent Rússum fyrirspurn vegna málsins en í fréttinni kemur fram að henni hafi ekki verið svarað.

Talið er að Rússar hafi misst um eina milljón hermanna í stríðinu og er þá átt við hermenn sem hafa látist eða slasast og ekki átt afturkvæmt á vígvöllinn. Talið er að um 250 þúsund rússneskir hermenn hafi dáið í stríðinu. Þessi miklu afföll hafa orðið til þess að yfirvöld leita út fyrir landsteinanna að hermönnum.

Blekkingar og óljós loforð

En aðferðirnar sem Rússar eru sagðir beita eru vafasamar, að því er segir í frétt CNN.

Úkraína segir að aðferðir Rússa felist einkum í þrýstingi, blekkingum og peningaloforðum. Margir innflytjendur frá Úsbekistan, Tadsíkistan og Kirgisistan ganga í rússneska herinn af ótta við að missa dvalarrétt sinn í Rússlandi. Ný lög gera yfirvöldum kleift að svipta nýja ríkisborgara rússneskum ríkisborgararétti ef þeir sinna ekki herþjónustu. Segja úkraínsk yfirvöld að menn frá þessum löndum hafi ítrekað lýst því að þeim hafi verið hótað varðhaldi eða brottvísun.

Einnig virðist Rússland leita beint til fólks utan landsteinanna, til dæmis með auglýsingum. Rannsóknarhópurinn OpenMinds hefur greint sjöfalda aukningu í auglýsingum sem beinast sérstaklega að útlendingum. Um miðbik árs 2025 var þriðjungur allra slíkra auglýsinga á samfélagsmiðlinum VK ætlaður útlendingum, samanborið við 7% ári áður. Hátt í helmingur þeirra beinist að rússneskumælandi fólki frá fyrrum ríkjum Sovétríkjanna, hinn hlutinn að ríkjum í Afríku, Suður-Asíu og Mið-Austurlöndum.

Töldu sig vera á leið í byggingarvinnu

Auglýsingarnar lofa oft talsverðum ávinningi fyrir þá sem skrá sig til þátttöku; ríflegum launum, heilbrigðisþjónustu, aðstoð við vegabréfsáritanir og jafnvel rússnesku ríkisfangi. CNN fékk til dæmis að sjá samning kínversks hermanns þar sem honum var lofað ókeypis menntun eftir þriggja ára herþjónustu.

Fangar sem Úkraína hefur yfirheyrt segjast þó margir hafa skrifað undir samninga á tungumáli sem þeir skildu ekki og því hafi þeir ekkert vitað hvað þeir væru að skrifa undir. Þá hafi þjálfun þeirra oft varað aðeins eina til tvær vikur áður en þeir voru sendir til árása í Úkraínu. Segir herforinginn Usov að af þeim um 18.000 útlendingum sem Úkraína hafi borið kennsl á hafi yfir 3.300 fallið.

Í grein CNN kemur fram að sumir hafi talið sig vera að fara til Rússlands til að vinna í byggingariðnaði, vöruhúsum, öryggisgæslu eða akstri, en síðan endað í hernum. Þetta á til dæmis við um einstaklinga frá Sri Lanka, Kúbu og Nepal.

Úkraínsk yfirvöld hafa hafið átak til að bjóða þeim erlendu hermönnum sem berjast fyrir Rússa örugga leið til uppgjafar kjósi þeir svo.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Svefnleysi er dýrasti heilsuvandi fyrirtækja“

„Svefnleysi er dýrasti heilsuvandi fyrirtækja“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„15 árum eftir áætluð verklok er enn rifist um staðsetningu Sundabrautar“

„15 árum eftir áætluð verklok er enn rifist um staðsetningu Sundabrautar“