
Orðið á götunni er að skýrsla starfshóps um þróun í útgáfu dvalarleyfa og misræmi við önnur Norðurlönd gefi stefnumörkun útlendingamála frá 2017 fullkomna falleinkunn. Kerfið hefur brugðist og það hlýtur að vera á ábyrgð þeirra sem hafa stýrt kerfinu. Fjölgun dvalarleyfa til þeirra sem eru með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins hefur nær fimmfaldast frá 2017 og Ísland hefur veitt hlutfallslega fleiri dvalarleyfi en öll önnur Norðurlönd frá 2019 og á það sérstaklega við hvað varðar alþjóðlega vernd og námsleyfi.
Sjálfstæðismenn hafa mikið gagnrýnt stöðu útlendingamála og óhóflegt innstreymi hælisleitenda hingað til lands. Útlendingamálin voru hins vegar undir stjórn Sjálfstæðismanna samfellt í tæp átta ár, frá ársbyrjun 2017 fram í desember á síðasta ári. Sigríður Á. Andersen gegndi embætti dómsmálaráðherra frá janúar 2017 til mars 2019, er hún varð að segja af sér embætti. Í september 2019 tók Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir við embætti dómsmálaráðherra. Jón Gunnarsson, varð dómsmálaráðherra um áramótin 2021/22 og Guðrún Hafsteinsdóttir tók við af honum sumarið 2023 og sat þar til núverandi ríkisstjórn tók við í desember á síðasta ári.
Orðið á götunni er að holur hljómur sé í gagnrýni Sjálfstæðismanna á stefnuleysi og linkind í málefnum hælisleitenda og útgáfu dvalarleyfa frá árinu 2017 vegna þess að það voru þeir sem stjórnuðu málaflokknum. Núverandi dómsmálaráðherra er að moka flórinn eftir Sjálfstæðismenn. Gagnrýni Sjálfstæðismanna, sem þeir reyna ýmist að kenna um stjórnmálaflokkum sem ekki eru lengur til á Alþingi eða núverandi ríkisstjórn, sem hefur setið í innan við ár og drjúgur hluti þingtímans á síðasta þingi fór í glórulaust málþóf Sjálfstæðisflokksins og annarra stjórnarandstöðuflokka gegn leiðréttingu veiðigjalda.
Orðið á götunni er að það sé loks nú, þegar búið er að sópa Sjálfstæðisflokknum út úr dómsmálaráðuneytinu, að einhver bragur er á pólitískri stefnumótun í útlendingamálum og útgáfu dvalarleyfa, sem hafa verið algerlega sér á parti hér á landi undir stjórn Sjálfstæðismanna. Landamærin hafa verið eins og vængjahurð.
Orðið á götunni er að útlendingamálin hafi ekki verið eina klúður Sjálfstæðismanna þau átta ár sem þeir stýrðu dómsmálaráðuneytinu. Núverandi dómsmálaráðherra tók við ýmsum vandamálum í arf eftir duglitla forvera sína í embætti. Í tíð Guðrúnar Hafsteinsdóttur kom upp sú staða að ófært var að Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, gæti setið áfram í embætti vegna ummæla sem hann lét falla í opinberri umræðu. Guðrún leysti ekki það mál heldur skildi það eftir fyrir eftirmann sinn að klára það. Leyfði sér svo að gagnrýna eftirmanninn fyrir að gera það sem þurfti að gera í málinu.
Orðið á götunni er að það verði alfarið að skrifast á Guðrúnu Hafsteinsdóttur að nauðsynlegt reyndist að flytja ríkislögreglustjóra til í starfi á fullum launum. Það var Guðrún Hafsteinsdóttir sem endurskipaði Sigríði Björk Guðjónsdóttur til fimm ára undir lok ráðherratíðar sinnar. Þá hafði ámælisverð meðferð Sigríðar Bjarkar á almannafé, sem leiddi til afsagnar hennar á dögunum, staðið yfir í mörg ár og því greinilegt að eftirliti dómsmálaráðuneytis Guðrúnar Hafsteinsdóttur og annarra ráðherra Sjálfstæðisflokksins með störfum ríkislögreglustjóraembættisins var alvarlega ábótavant. Samt leyfði Guðrún og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins sér að gagnrýna Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur þegar hún var einungis að moka flórinn eftir Guðrúnu. Einhverjir myndu kalla það að kasta steinum úr glerhúsi.
Orðið á götunni er að Sjálfstæðismenn sem bera alla ábyrgð á hverju klúðrinu á fætur öðru í dómsmálaráðuneytinu, sem Þorbjörg Sigríður hefur þurft að ganga í að leysa, ættu að fara sér hægt í gagnrýni sinni. Ef þeir sýndu einhverja iðrun vegna framgöngu sinnar þegar þeir voru í ríkisstjórn stæðu kannski vonir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn geti afstýrt endanlegri brotlendingu sinni í íslenskri pólitík.