

Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur staðfest synjun heilbrigðisráðuneytisins á beiðni ónefndrar konu um að fá afhenta samninga íslenska ríkisins við framleiðendur um kaup á bóluefnum gegn Covid-19 veirunni.
Konan kærði málið í október 2024 en í júlí það ár sneri hún sér til ráðuneytisins. Rakti hún í erindinu að árið 2021 hefði hún óskað eftir samningum íslenska ríkisins við bóluefnaframleiðendur vegna Covid-19 faraldursins en beiðninni verið hafnað. Samkvæmt nýjum fréttum um bóluefnasamninga Evrópusambandsins teldi Evrópudómstóllinn að framkvæmdastjórn sambandsins hefði brotið lög með því að afmá upplýsingar um samninga sem gerðir hefðu verið við lyfjafyrirtæki um kaup á bóluefnum í faraldrinum. Ákvörðun ráðuneytisins árið 2021 að hafna beiðni hennar hefði byggst á sambærilegum rökum og þeim sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði vísað til en Evrópudómstóllinn nú hafnað. Af því tilefni óskaði konan að nýju eftir afriti af öllum samningum íslenska ríkisins við framleiðendur efnanna.
Konan lagði að lokum kæruna fram þar sem ráðuneytið svaraði ekki beiðni hennar og varð ekki við áskorun nefndarinnar um að afgreiða beiðnina.
Í umsögn ráðuneytisins um kæruna kom meðal annars fram að það hefði undirritað fjölda samninga sem gerðir væru á grundvelli samninga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur auk viðbótarsamninga vegna breyttra dagsetninga afhendingar bóluefna. Enn væri verið að afhenda bóluefni samkvæmt einum þeirra samninga sem beiðni um upplýsingar tæki til.
Vísaði heilbrigðisráðuneytið til fyrri úrskurða nefndarinnar um að heimilt væri að takmarka aðgang að samningum af sama tagi. Enn væri verið að bólusetja tiltekna hópa gegn veirunni og ljóst væri að festa þyrfti kaup á fleiri skömmtum af bóluefnum á næstu misserum.
Ráðuneytið sagði að farsælt alþjóðlegt samstarf um kaup og afhendingu bóluefna gegn Covid-19 hefði verið lykilatriði í baráttu íslenskra stjórnvalda gegn áhrifum faraldursins og ljóst væri að án þess hefði samningsstaða íslenska ríkisins sem kaupanda bóluefnis verið mun lakari. Líta bæri til þess að þær þjóðir sem aðild hefðu átt að umræddu samstarfi hefðu synjað beiðnum um afhendingu sömu samninga á þeim grundvelli annars vegar að í þeim væru ákvæði sem gerðu ráð fyrir að um efni þeirra ríkti trúnaður og hins vegar að afhending þeirra væri til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á samskipti ríkja og alþjóðastofnana.
Að mati ráðuneytisins fælist í því mikil áhætta að veita aðgang að samningunum, og væri til þess fallið að rýra traust í garð íslenska ríkisins sem þátttakanda í alþjóðlegri samvinnu á þessu sviði. Til þess væri að líta að þátttaka íslenska ríkisins í samstarfsverkefni Evrópusambandsins um kaup á bóluefnum hefði alfarið byggt á því að Evrópusambandið samþykkti aðild Íslands, sem hefði ekki átt beinan rétt til þátttöku á grundvelli EES-samstarfsins. Milliganga sænska ríkisins hefði jafnframt verið grundvallarþáttur í afhendingu bóluefna til íslenska ríkisins. Enn væri verið að bólusetja gegn Covid-19 og ekki væri á þessu stigi ljóst hversu lengi þess gerðist þörf. Þá skipti ekki síður máli ef brýn þörf skapaðist fyrir önnur bóluefni, að íslenska ríkið fyrirgerði ekki möguleikum sínum á þátttöku í sambærilegum verkefnum.
Á þessum grundvelli taldi ráðuneytið rétt að synja beiðninni.
Konan gagnrýndi í umsögn sinni um andsvör ráðuneytisins að ekki hefði verið tekið tillit til áðurnefnds dóms Evrópudómstólsins. Velti hún því upp hvort leynd yfir samningunum stafaði af því að Covid-19 hefði verið hernaðaraðgerð, þar sem ríkisstjórnin hefði farið að fyrirmælum NATO á meðan faraldurinn gekk yfir.
Í október síðastliðnum, meðan málið var enn til meðferðar, sendi ráðuneytið nefndinni erindi. Þar kom fram að búið væri að afhenda allt bóluefni sem keypt hefði verið á grundvelli bóluefnasamninganna. Sóttvarnalæknir annaðist nú öll innkaup á bóluefnum, líkt og verið hefði fyrir Covid-19-faraldurinn, á grundvelli reglugerðar um bólusetningar á Íslandi. Afstaða ráðuneytisins um að aðgangur að samningunum skyldi takmarkaður væri óbreytt.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að samningarnir séu átta talsins og bæði íslenska og sænska ríkið séu aðilar að samningunum en alls er um að ræða 11 fyrirtæki.
Nefndin segir að í fyrri úrskurðum sínum hafi hún lagt mat á rétt almennings til aðgangs að samningum íslenska ríkisins um kaup á bóluefnum vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Í þeim úrskurðum hafi það verið mat nefndarinnar að heimilt væri að takmarka aðgang að þeim á grundvelli upplýsingalaga.
Nefndin segist hafa farið yfir samningana og þeir hafi að geyma samskipti bæði við annað ríki og fjölþjóðastofnun, enda byggi þeir á samningum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gerði við framleiðendur bóluefna gegn Covid-19. Við mat á því hvort mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að samningarnir fari leynt telur nefndin þýðingarmikið að þátttaka íslenska ríkisins í samstarfsverkefni Evrópusambandsins um kaup á bóluefnum byggði á því að sambandið samþykkti aðild Íslands að verkefninu, sem hefði ekki átt beinan rétt til þátttöku á grundvelli EES-samstarfsins. Jafnframt horfir nefndin til þess að milliganga sænska ríkisins var grundvallarþáttur í afhendingu bóluefna til íslenska ríkisins.
Þetta samstarf hafi grundvallast á gagnkvæmu trausti og trúnaðarskyldu milli samningsaðila sem endurspeglist í samningunum sem deilt sé um aðgang að og ekki síður í samningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem þeir byggi á, þar sem skýrt sé kveðið á um trúnaðarskyldu samningsaðila. Ljóst sé að einhliða birting þeirra myndi ekki samræmast þessum skuldbindingum og vera til þess fallin að rýra traust í garð íslenskra stjórnvalda, draga úr möguleikum þeirra á að taka þátt í sambærilegu alþjóðlegu samstarfi síðar og valda þannig tjóni á mikilvægum almannahagsmunum.
Nefndin telur því ráðuneytinu heimilt samkvæmt upplýsingalögum að takmarka aðgang að samningunum. Dómar Evrópudómstólsins sem konan vísi til sem röksemdar fyrir því að heimila aðganginn komi ekki til skoðunar í því samhengi enda hafi í þeim dómsmálum ekki verið deilt um takmarkanir á upplýsingarétti vegna utanríkishagsmuna ríkis, sem sé grundvöllur niðurstöðu nefndarinnar í málinu, heldur einkum takmarkanir vegna viðskiptahagsmuna framleiðenda bóluefnanna. Þá verði ekki séð að samningsaðilar innan Evrópusambandsins hafi gert umrædda samninga aðgengilega almenningi í kjölfar dómanna.