fbpx
Miðvikudagur 19.nóvember 2025
Pressan

Fjaðrafok í netheimum því kona lauk doktorsnámi í stað þess að unga út börnum – „Njóttu kattanna þinna“

Pressan
Miðvikudaginn 19. nóvember 2025 07:00

Mynd/@juliiett_ á Instagram

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ung kona lauk á dögunum doktorsnámi við Oxford-háskóla í þróunarlíffræði. Hún ákvað að fagna áfanganum með því að birta færslu á samfélagsmiðlinum X þar sem hún birti mynd af sér í útskriftarfötunum og skrifaði:

„Eftir fjögur ár af rannsóknum hef ég varið doktorsritgerð mína. Þið megið kalla mig doktor.“

Unga konan, sem heitir Juliet Turner og er 27 ára gömul, er tæpast fyrsta manneskjan til að fagna stórum áfanga með þessum hætti. Hana óraði þó ekki fyrir því að færsla hennar myndi setja allt á hliðina.

Fljótlega eftir að færslan birtist fóru ókunnugir karlmenn að skrifa athugasemdir þar sem þeir húðskamma hana fyrir að hafa farið í doktorsnám þegar hún hefði getað verið að eignast börn.

Hér eru örfá dæmi:

„Engin amma hefur verið spurð á dánarbeðinu: Um hvað fjallaði doktorsritgerðin þín.“

„Þú hefðir getað eignast fjögur börn á þessum tíma, fleiri ef þú telur fornámið með.“

„Hey Jules [sic] öllum nema fræðasamfélaginu stendur á sama. Njóttu kattanna þinna.“

„Þú hefur varið öllum þínum fullorðinsárum í að ganga í augun á karlmönnum og stofnununum sem þeir byggðu. Þú svaraðir prófspurningum þeirra eins og þeir höfðu þjálfað þig og lagðir fram ritgerð þína svo þeir gætu samþykkt hana. Allt svo menn gætu vottað að þú værir ásættanlegur kostur með pappírssnifsi.“

„Tómur eggjabakki“

„30 ára gömul og barnlaus. Forfeður hennar dauðskammast sín.“

Sumir virtust taka því sérstaklega illa að Juliet sé hugguleg, hvít kona frá Vesturlöndum. Í ljósi lækkandi frjósemi þessa hóps sé það skylda hennar við heiminn að fjölga sér í stað þess að eltast við heimskulegar háskólagráður.

Ekki hjálpaði það svo til þegar Juliet svaraði einni athugasemd og sagðist búa með maka sínum svo það væri nú ekki eins og hún væri einhleyp – en það fór fyrir brjóstið á reiðu karlmönnunum að hún notaði orðið maki (e. partner).

Enn aðrir létu það svo fara í taugarnar á sér að Juliet hafi tilkynnt að fólk mætti núna kalla hana doktor, enda væri hún ekki læknir. Þetta væri ekkert nema tilgerð sem væri móðgun við heilbrigðisstéttirnar.

Einn benti á að enginn karlmaður hefði nokkurn tímann bent á konu og sagt: Sjáðu bara háskólagráðuna á þessari gellu.

Juliet og fleiri hafa furðað sig á þessum viðbrögðum. Hér var ung kona að fagna merkum áfanga. Hún var ekkert að skipa fólki að kalla sig doktor um aldur og ævi heldur að lýsa því yfir að hún væri núna doktor í líffræði, eins og svo margir aðrir hafa gert í gegnum tíðina.

Þetta furðulega mál hefur nú komið af stað bylgju á netinu þar sem konur með háskólagráður birta af sér útskriftarmyndir og skrifa með:

„Sjáðu bara háskólagráðuna á þessari gellu.“ 

Málið þykir benda á bakslag sem hefur orðið í kvenréttindabaráttunni, uppgang kvenhaturs í netheimum og haturs í garð æðri menntunar. Juliet lætur þetta þó ekkert á sig fá og hefur svarað gagnrýninni með húmorinn að vopni. Hún segist vera að gera það sem hún elskar og geti ekki tekið ábyrgð á því að árangur hennar særi karlmenn sem greinilega séu að upplifa eitthvað óöryggi.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 1 viku

Endalaus hneykslismál liðsmanns Svíþjóðardemókrata – Gat ekki hætt að taka myndbönd af sjálfum sér undir áhrifum

Endalaus hneykslismál liðsmanns Svíþjóðardemókrata – Gat ekki hætt að taka myndbönd af sjálfum sér undir áhrifum
Pressan
Fyrir 1 viku

„Svörtu ekkjurnar“ í Rússlandi

„Svörtu ekkjurnar“ í Rússlandi