

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur úthúðað þingkonunni Marjorie Taylor Greene, sem þar til nýlega hefur verið ein af hans áköfustu stuðningsmönnum. Þingkonan hefur hins vegar undanfarið í auknum mæli gagnrýnt forsetann og ríkisstjórn hans. Segir hún meðal annars forsetann ekki vera að standa við það sem hann sagðist ætla að gera fyrir kosningar, að setja Bandaríkin í fyrsta sæti, en hefur gagnrýnt hann einnig fyrir það hvernig hann hefur haldið á hinum lífseigum málum sem tengjast Jeffrey Epstein. Hefur Trump í kjölfarið uppnefnt Greene og kallað hana svikara og sagt stuðningi sínum við hana lokið.
Mikið er fjallað um þessa miklu vík sem þarna hefur orðið milli vina í fjölmiðlum vestanhafs.

Marjorie Taylor Greene er líklega ein af þekktustu þingmönnum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Hún er í flokki Repúblikana og kjördæmi hennar er í Georgíu ríki. Hún hefur þótt hörð í horn að taka og talin vera meðal þeirra sem eru einna lengst til hægri í flokknum. Greene hefur stutt Donald Trump með ráðum og dáð og kallað hann merkan forseta og verið ánægð með yfirlýsta stefnu hans.
Undanfarið hefur þó tónninn í Greene breyst svo eftir hefur verið tekið vestanhafs. Hún hefur gagnrýnt forsetann, ríkisstjórn hans og flokksfélaga sína á þingi fyrir til að mynda hversu lítið sé gert til að ná tökum á framfærslukostnaði, til að mynda verðlagi á nauðsynjavörum, fyrir hinn almenna borgara. Greene hefur sömuleiðis gagnrýnt háan kostnað sem almenningur þarf að greiða fyrir sjúkratryggingar og þar með aðgang að heilbrigðisþjónustu og þykir þar eiga jafnvel eiga meira sameiginlegt með vinstri sinnuðustu þingmönnum fremur en Trump og hans fólki.
Þegar kemur að utanríkismálum hefur Greene gagnrýnt Trump og ríkisstjórn hans fyrir sífelld afskipti af stríðsrekstri í öðrum löndum, þar á meðal Úkraínu. Sérstaka athugasemd hefur hún þó gert við nánast stanslausan stuðning við Ísrael og hernað þess. Er hún þar í hópi sístækkandi hóps hægri manna í Bandaríkjunum sem gagnrýna opinskátt að bandarísk vopn og önnur hernaðaraðstoð hafi verið nýtt af Ísraelum til að gera árásir á palestínskan almenning.
Greene hefur einnig gagnrýnt Trump og hans fólk fyrir það hvaða tökum það hefur tekið gögn og önnur atriði sem snúa að fyrrum kynnum forsetans og kynferðisbrotamannsins Jeffrey Epstein. Hefur hún hvatt til þess að ríkisstjórnin opinberi öll gögn sem tengjast hans málum. Trump hefur verið tregur til þess en sú stífla er farin að bresta og þegar hafa verið opinberuð um 20.000 blaðsíður af gögnum og nafn forsetans kemur þar fyrir en þó hefur enn ekkert birst sem hefur þótt bendla hann með beinum og greinilegum hætti við kynferðisbrot. Eins og áður hefur forsetinn harðneitað því að hafa gert nokkuð slíkt af sér og segir demókrata vera að reyna að gabba almenning.
Svo virðist sem að það séu ekki síst Epstein-málin sem gerðu það að verkum að forsetinn hefur úthúðað Greene í fjölda færslna á samfélagsmiðli sínum Truth Social.
Trump hefur meðal annars kallað þingkonuna svikara, sagt hana klikkaða og að hann muni ekki veita henni sinn stuðning lengur og hennar tími í stjórnmálum sé liðinn. Í einni færslunni segir hann þingkonuna til skammar fyrir Repúblikanaflokkinn.
Greene hafa borist hótanir eftir þessu reiðilegu skrif forsetans.
Hún hefur skrifað á samfélagsmiðlum að það sem virðist hafa reitt forsetann svona mikið til reiði hafi verið að hún hafi sent honum skilaboð um Epstein. Segist hún ósátt við að forsetinn sé svona ákafur þegar kemur að málum tengdum Epstein og því sem sé að gerast utan landsteina Bandaríkjanna. Telur hún æskilegra að forsetinn láti sér meira annt um bandarískar fjölskyldur sem berjist margar hverjar við að ná endum saman.
Sagðist hún hvorki dýrka né þjóna Donald Trump.
Greene hefur tjáð fréttastofu NBC að hún telji forsetann vera komin of langt frá einu helsta slagorði sínu fyrir síðustu forsetakosningar, Bandaríkin fyrst (e. America first).
Greene segir að almenningi sé alveg sama um erlend ríki og þá erlendu leiðtoga sem streymi í heimsóknir í Hvíta húsið. Hún segir að hún sjálf og margt annað stuðningsfólk forsetans hafi kosið hann til að hætt yrði að senda bandaríkst skattfé og vopn til annarra ríkja.
Ljóst er að Greene er ekki sú eina úr hópi bandarískra íhaldsmanna og þeirra sem höfðu stutt Trump sem er óánægður með áherslur forsetans en þó er staða hans innan flokksins enn nokkuð sterk, en virðist þó hafa veikst í kjölfar gagnrýni í þessu anda og taps Repúblikana í kosningum í nokkrum ríkjum fyrr í mánuðinum.
Aðspurður um þá gagnrýni að hann einblíni allt of mikið á önnur lönd en Bandaríkin segir Trump að það þýði ekkert annað fyrir hann en að fylgjast með því sem sé að gerast í heiminum og hafa afskipti af því, annars sé of mikil hætta á að Bandaríkin dragist inn í heimsstyrjöld.