
Eins og fram hefur komið hefur Hannes Valle Þorsteinsson, fyrrverandi leiðbeinandi á leikskólanum Múlaborg, verið ákærður fyrir tvö kynferðisbrot gegn nemanda á leikskólanum.
Samkvæmt upplýsingum frá Héraðssaksóknara játaði Hannes sök að hluta í málinu en neitaði að hluta. Ekki liggur fyrir hverju Hannes játaði og hverju hann neitaði.
Samkvæmt ákærunni er Hannes talinn hafa brotið tvisvar gegn sama stúlkubarninu með því að hafa haft önnur kynferðismök en samræði gegn henni. Hann er þar sagður hafa misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni, brugðist trausti hennar og trúnaði hennar, sem starfsmaður leikskólans. Í síðara brotinu er hann jafnframt sagður hafa notfært sér að þannig var ástatt um stúlkuna að hún gat ekki spornað við verknaðinum vegna svefndrunga.
Frekari lýsingar á meintum brotum hafa verið afmáðar úr þeirri útgáfu ákærunnar sem fjölmiðlum barst í gær eftir þingfestingu málsins.
Eins og kom fram í fréttum fyrr í haust hafði lögregla til rannsóknar fleiri mál gegn Hannes er vörðuðu meint brot hans gegn börnum á leikskólanum. Sigurður Ólafsson, saksóknari í málinu fyrir hönd Embættis héraðssaksóknara, hefur svarað fyrirspurn DV um málið og greinir frá því að embættinu hafi borist þrjú mál sem varða Hannes. Ákært var í einu en í tveimur málanna voru rannsóknargögn ekki talin bera með sér þau að væru líkleg til sakfellis og málin því felld niður á grundvelli 145. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kemur einnig fram í svari Sigurðar að lögregla hafi hætt rannsókn þeirra mála sem ekki bárust embættinu til meðferðar.
Bylgja Hrönn Baldursdóttir, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, upplýsir í samtali við DV að alls hafi borist 16 tilkynningar til lögreglu vegna Hannesar fyrir utan upphaflegu tilkynninguna sem leiddi til ákæru. Bylgja segir lögreglu taka tilkynningar af þessu tagi mjög alvarlega og þessar tilkynningar voru allar rannsakaðar en þær hafi verið misjafnlega efnismiklar. Í einhverjum tilvikum var um að ræða ábyrga foreldra barna við leikskólann sem höfðu tekið eftir hegðunarbreytingum hjá barni sínu undanfarið. Í sumum þeirra tilvika var ekki talið líklegt að brot hefði verið framið.
„Maður láir foreldrum engan veginn að gera slíkar tengingar,“ segir Bylgja og telur ábendingarnar bera merki um að foreldrar sýni ábyrgð. „Allt var þetta skoðað með tilliti til þess hvort talið væri að brot hefði verið framið eður ei.“
Síðan voru önnur tilvik þar sem grunur var um brot en mál ekki talið líkleg til sakfellingar. Eftir rannsókn lögreglu fóru málin til ákærusviðs lögreglunnar sem ákvað að senda þrjú mál til héraðssaksóknara til mögulegrar ákærumeðferðar.
„Það er rétt að hafa í huga að sönnunarbyrði í svona málum er gríðarlega erfið og því yngri sem börnin eru því erfiðara er að fá fram framburð,“ segir Bylgja.
Niðurstaðan var sú ákærusvið lögreglunnar taldi að í þremur málum sem voru rannsökuð hefði Hannes framið brot. Niðurstaða héraðssaksóknara var sú að aðeins eitt mál var talið líklegt til sakfellingar, mál sem varðar tvö meint brot Hannesar gegn einu barni.